Hugleiðingar konu v. 6.0
 
20. des. 2005
Í dag komst ég að því að stundum eru gerðar meiri kröfur til nemenda en til kennara.

Þegar við vorum hér fyrr í vetur að fara yfir gömul próf með aðstoðarkennara gerðum við óspart grín að aðal-kennaranum sem virtist afar illa að sér í notkun móðurmálsins sem og uppsetningu skjala. Ég bjóst við því að aðstoðarkennarinn myndi koma þessu gríni öllu til skila en það virðist hann ekki hafa gert. Í prófinu í dag mátti sjá að afar illa hafði verið lesið yfir og var jafnvel ekki sama uppsetning á öllum krossaspurningum, með tilliti til línubila og annarra formsatriða.

Á nokkrum stöðum var að finna svarmöguleikann: "Liðir 1 og 4 eru báðir réttir". Hins vegar voru liðirnir alls ekki númeraðir heldur merktir bókstöfum. Ég ákvað að það gæti að sjálfsögðu ekki talist rétt að segja að liðir 1 og 4 væru réttir þegar þeir voru bara alls ekki til. Þó var ég á einum stað nokkuð viss um að liðir a og d væru báðir réttir og merkti því við skringilega svarmöguleikann, bara svona til öryggis. Maður veit aldrei hvernig þessir kennarar hugsa.

Annars stóð í leiðbeiningunum að maður ætti að merkja við "réttasta" svarið. Þannig finnst mér kennari gefa sér ansi mikið svigrúm. Meðal annars má gera ráð fyrir að mögulega séu öll svörin röng en eitt þó næst því að vera rétt, eða að öll svörin séu rétt en eitt þeirra innihaldi meiri sannleika en önnur. Kennari getur alltaf sagt að honum hafi fundist eitt svar bera af öðrum ef nemandi leitar til hans vegna óánægju með einkunnagjöf.

Mér finnst þetta bara vera helbert svindl. Við nemendurnir erum dæmdir ef okkur yfirsést tvöföld neitun í spurningu en kennari þarf ekki einu sinni að sjá muninn á "4" og "d".
posted by ErlaHlyns @ 22:27  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER