Hugleiðingar konu v. 6.0
 
16. des. 2005
Fyrra prófið er á morgun, laugardag, og hvað geri ég? Baka smákökur og skrifa jólakort. Það er engin lygi að ég á erfitt með að einbeita mér að próflestri. Ég get gert allt annað, og jafnvel lesið allt annað, en þegar kemur að bókum sem á að prófa mig upp úr gengur þetta ekki jafn vel. Mér eru minnisstæð samræmdu prófin í 10. bekk. Þá las ég Goð og garpa fyrir hvert einasta próf. Afar spennandi bók um norrænar goðsagnir sem tengdust námsefni mínu ekki baun. Ég fékk svo verðlaun frá skólanum fyrir framúrskarandi námsárangur. Háskólaferill minn hefur þótt síður eftirtektarverður.

Smákökurnar eru einstakar í sínum flokki og þær eru líka í prófum, eða prófun, réttara sagt. Ég er prófarinn og ég er með nefkvef. Kökurnar fara svo í smákökukeppni. Ég vona að þeirra prófskrekkur sé hverfandi.

Varðandi jólakortin þá ákvað ég að byrja á að skrifa þeim sem eru aldraðir og þeim sem búa erlendis. Augljóst er hví ég byrjaði á þeim gömlu - tölfræðilega eru mun meiri líkur á að einmitt þeir séu hrokknir upp af milli jóla og nýjárs og verði því ekki til staðar til að taka á móti kortum sem berast of seint. Síðan hefur víst verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að kort séu lengur að berast til útlanda en milli húsa hér heima. Því er erlendum félögum einnig hleypt fremst í röðina.
posted by ErlaHlyns @ 04:12  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER