Hugleiðingar konu v. 6.0
 
12. des. 2005
Nú stendur leynivinaleikurinn sem hæst í vinnunni. Leikurinn er jólahefð sem virkar þannig að um mánuði fyrir jól eru nöfn allra starfsmanna og kvenna sett í poka. Síðan draga sér allir eitt nafn og taka að sér að gleðja viðkomandi á leynilegan hátt fram að jólum. Það er stranglega bannað að segja neinum hvern maður er að gleðja. Glaðningurinn getur verið hvort sem er í formi andlegra eða efnislegra gæða. Desember er þess vegna afar spennandi mánuður því á hverri vakt er fólk að spá og spekúlera í glaðningi sínum og annarra og velta fyrir sér hverjir eru leynivinir hverra. Nú get ég af skiljanlegum ástæðum ekki ljóstrað upp hér hvað ég hef gert fyrir leynivin minn en ég get lofað ykkur því að það hefur allt verið afar glæsilegt og skemmtilega útfært.

Leynivinur minn er einnig afar sniðugur og þann 1. desember tók hann upp á því að setja súkkulaðidagatal í hólfið mitt. Ég varð auðvitað yfir mig kát því ég hef ekki fengið svona dagatal í fjölda ára. Mamma hefur í gegn um tíðina verið dugleg að gefa mér páskaegg og stundum hafa aðrir ástvinir gert hið sama. Dagatöl hafa samt ekki verið á dagskrá. Vegna skorts á æfingu hef ég því átt mjög erfitt með að koma súkkulaðiátinu inn í dagplanið. Um daginn uppgötvaði ég til dæmis að ég hafði gleymt að borða súkkulaði í 5 daga og var ég því tilneydd til að borða 5 mola sama daginn. Ég velti því fyrir mér hvort það hefði verið kannski betra að borða 3 mola þann daginn og 3 mola næsta dag - nú eða 2 mola á dag næstu 3 daga. Á endanum varð ég þó sátt við ákvörðun mína. Ég get nú fullyrt að það er ekkert grín að þurfa að borða súkkulaði daglega.
posted by ErlaHlyns @ 01:21  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER