19. sep. 2006 |
Regla í óreglunni |
Nýlega upplifði ég yndislegan dag. Ég verð að deila honum með þér.
Ég vaknaði að venju allt of seint og drakk kaffi á fastandi maga. Eftir hádegisverð fór ég til mágkonu minnar, sem ég hafði ekki hitt lengi, en hún var á leið með yngsta soninn til læknis. Á meðan leit ég eftir miðsyninum. Í um hálfa klukkustund dunduðum við okkur við að borða eina brauðsneið með osti. Síðan tók ég annan hálftíma í að þrífa nánasta umhverfi. Þegar móðir og barn komu aftur heim fylgdist ég með þeim 14 mánaða segja endurtekið ,,Aaaaa" við þann 8 vikna, klappa honum og kyssa á ennið. Mesti fýlupúki hlyti að brosa við slíka sjón.
Eftir að kossaflensi bræðranna lauk röltum við út í búð og keyptum í kvöldmatinn. Þar tókst mér að keyra á ófáa pirraða viðskiptavinina því ég gerði mér ekki alveg grein fyrir hvað tvöföld barnakerra væri löng. Á meðan mamman beið í endalausri röðinni við kassann fór ég fram með drengina og ég get svarið að mér leið eins og ofurhetju þegar mér tókst að hugga þá, báða í einu. Síðan mundi ég að þetta gera margir foreldrar oft á dag, alla daga. Liklega eru þeir hetjurnar en ekki ég.
Þegar heim var komið hófst undirbúningur kvöldverðar. Heimilisfaðirinn og elsti sonurinn bættust í hópinn og saman snæddum við eins og alvöru fjölskylda, nema hvað að ég tilheyrði auðvitað ekkert þessari litlu fjölskyldu. Mér leið samt ekki þannig. Mér fannst þetta allt svo notalegt. Eftir mat hugaði móðurin að þeim yngsta, faðirinn að þeim næsta og ég sá um eldhúsið. Rúmlega átta var komin ró í húsið og allt tandurhreint. Þeir sem eftir vöktu settust þvínæst niður við spil, og borðuðu snakk og grænan ópal. Dagur að kvöldi kominn - venjulegur fyrir þau, stórkostlegur fyrir mig.
Í dag byrjaði ég að vinna aftur eftir orlof. Það fer smátt og smátt að færast meiri regla yfir líf mitt. Líklega var ég komin með yfir mig nóg af óreglu og fannst allt skipulagið næstum einum of þægilegt. Ég ímyndaði mér að svona liði rótlausum unglingi sem kemur inn á alvöru heimili og fær að taka þátt í reglu og skipulagi fjölskyldunnar.
Áður en ég geri út af við fólk með væmni er best að geta þess að líklega verð ég farin að þrá óregluna aftur áður en tveir mánuðir eru liðnir. |
posted by ErlaHlyns @ 00:37 |
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|