Ég var varla orðin ólétt þegar ég ákvað að ég ætlaði að fara á námskeið til að læra að búa til barnamat. Nú er komið að því. Ég er búin að skrá mig á námskeið hjá Ebbu Guðnýju Guðmundsdóttur, höfundi bókarinnar Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða?
Bókina á ég að sjálfsögðu líka, eða við Lovísa réttara sagt. Við fengum hana að gjöf þegar Lovísa var rétt komin í heiminn. Bókin sú hefur aldeilis nýst okkur vel og má segja að þetta sé hálfgerð Biblía á þessu heimili.
Lovísa fær yfirleitt heimatilbúinn mat, maukað grænmeti, ávexti og heilnæmar olíur. Hún byrjaði á því að fá avókadó, sætar kartöflur og hörfræolíu. Allt eftir bókinni. Ég kaupi grauta úr lífrænt ræktuðu hráefni frá Holle og dóttirin dafnar bara heldur vel. Hún er byrjuð að fá kjúkling en við bíðum aðeins með fiskinn.
Nú er Lovísa orðin átta mánaða og er farin að borða fjölbreyttari fæðu en áður. Því held ég að þetta sé aldeilis rétti tíminn til að fara á námskeið. Það er líka eins gott að ég fékk pláss núna því þetta er síðasta námskeiðið sem Ebba Guðný heldur áður en hún fer til Suður-Afríku og kemur ekki aftur fyrr en næsta vor.
Hún er síðan nýbyrjuð að gera myndbönd sem hún setur á YouTube, Channel Ebba, þar sem hægt er að fylgjast með því hvað það er ótrúlega einfalt að fara eftir uppskriftunum hennar.
Ég læt hér fylgja með myndband þar sem hún býr til Bangsímonmauk.
Auðvitað þarf hvert foreldri að finna hvað barninu hentar og hvað hæfir lífsstíl fjölskyldunnar en mér hefur fundist mjög gott að fara eftir bók Guðnýjar Ebbu. Auk þess hef ég lesið mér alveg heilmikið til á Netinu.
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“