Hugleiðingar konu v. 6.0
 
10. ágú. 2006
Tjippendeils
Mér þykir það alltaf jafn hvimleitt þegar fávísar raddir úr ýmsum áttum hrópa:
Af hverju hefur Femínistafélagið ekkert gert í þessu?

Nú heyrast þessar raddir vegna komu Chippendales-drengja til landsins með sýningu sína sem sagt er að sé ,,betri en kynlíf" og leyfi ég mér að efast stórlega um það. Jafnvel ímynda ég mér að sú sem lét þetta frá sér fara hafi alls ekki sagt: Better than sex, heldur kannski: Better than Fed-Ex. En hallærislegheitin eru meiri því konur eru hvattar til að fara á sýninguna af því að eiginmaðurinn horfði á HM í heilan mánuð. Konur sem horfðu líka á HM eru þá líklega ekki velkomnar. Þannig verða þarna aðeins konur sem vilja á einn eða annan hátt að hefna sín á eiginmanninum.

Þeir sem hafa kynnt sér málin vita að talskona Femínistafélagsins hefur gagnrýnt þessa sýningu bæði í ræðu og riti. Má nefna viðtal í Síðdegisútvarpi Rásar 2 og grein í Viðskiptablaðinu. Það er hins vegar svo að Femínistafélagið, eins öflugt og það nú annars er, ræður því ekki hversu mikla fjölmiðlaathygli aðgerðir þess fá. Sumar aðgerðir þykja afar merkilegar og er slegið upp sem stórfréttum í öllum miðlum á meðan aðrar fá minni athygli. Er það kannski ekkert spennandi að Femínistafélagið skuli gagnrýna strípisýningar karla?

Í framhaldinu vil ég benda fólki á að ef því finnst ástæða til að gera eitthvað í málunum er öllum frjálst að gera einmitt það. Femínistafélagið eru frjáls félagasamtök þar sem allt er unnið í sjálfboðavinnu. Í stað þess að gagnrýna félagið fyrir meinta vanvirkni er um að gera að leggja hönd á plóginn og gera það enn virkara.

Þú ert velkomin/nn.
posted by ErlaHlyns @ 15:12  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER