29. des. 2006 |
Ljóðaljóð |
Ég man að þegar ég var í grunnskóla skrifuðum við ritgerð um ljóðabók. Ég man ekkert hvað bókin hét en hún var eftir Ísak Harðarson og eitt ljóðið hét Línuýsa. Þegar kom að því að nefna ritgerðina ákvað ég að vera ljóðræn og búa til orð. Mér fannst það hæfa tilefninu. Að sjálfsögðu man ég heldur ekki orðið. Mér er þó minnisstæð athugasemdin frá kennaranum á forsíðunni: Er þetta orð??
Mér skilst að nemendur í samræmdum prófum nú til dags eigi að merkja við rétt svar með krossi þegar kemur að túlkun ljóða. Ekki mikið rúm fyrir frumlegheit þar.
Annars les ég lítið ljóð. Helst les ég bara ljóð eftir fólk sem ég þekki. Ég vil alltaf fá að vita hvað höfundur var að hugsa þegar hann skrifaði ljóðið og hverju hann vildi koma til skila. Mér finnst þetta mikilvægara með ljóð en skáldsögur. Sum ljóð eru auðvitað kristalskýr en þau finnast mér ekki nógu spennandi. Ljóð eiga að vera lúmsk.
Mögulega myndi ég íhuga að lesa ljóð eftir höfund sem byði lesendum að senda sér sms eða tölvupóst. Þá myndi ég skrifa: Hey, hvað varstu að pæla þarna, ha?
Eitt sinn bjó ég með stúlku sem skrifaði ljóð og málaði myndir. Ég spurði hana alltaf í þaula hvað hún hefði verði að hugsa þegar hún skrifaði ljóðin og málaði myndirnar. Hún sagði alltaf að hún hefði ekki hafa verið að hugsa neitt, að þetta hafi bara komið. Mér fannst þetta auðvitað alveg ótækar skýringar.
Í stofunni minni er málverk eftir hana. Ég veit ekki hvað ég var að hugsa. |
posted by ErlaHlyns @ 10:26 |
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|