28. jún. 2007 |
Dýradráp |
Dýraeigendur eru ekki þeir einu sem eru miður sín þessa dagana. Hálf þjóðin er í losti yfir viðurstyggilegu framferði nokkurra pilta sem settu lítinn hund í íþróttatösku og spörkuðu á milli sín þar til hundurinn dó.
Hinn helmingur þjóðarinnar hefur spurt sig af hverju fólki sé jafnvel meira brugðið nú en þegar skattborgarar eru myrtir.
Ég held að ástæðan sé sú að þarna er um að ræða gæludýr. Hundar eru almennt líf og yndi eigenda sinna og færa þeim ómælda gleði. Hundar kúra hjá þeim sem líður illa og þeir missa sig af kæti ef þeim er rétt eitt einasta bein. Hundar eru yndislegir en þeir eru líka litlir vitleysingar sem særa engan viljandi. Hvernig er hægt að fá af sér að drepa slíka skepnu?
En nú eru þeir margir, allt of margir, sem léku sér að því sem börn að pynta ketti; hengdu þá upp á skottinu eða settu sinnep í óæðri endann. Einhverjir hafa sparkað í ketti og hunda, sér til gamans, en aldrei komst upp um þá. Eru þeir hótinu skárri en þessir drengir?
Það sem gerir þenna verknað þeirra óhugnarlegri en ella er að þeir voru margir. Eitt er þegar fólk í bræðiskasti gerir ófyrirgefanlegan hlut. Eitt er þegar skorti á vitsmunum er um að kenna. Annað er þegar nokkrir aðilar taka sig saman og skipuleggja ódæðisverk sem þetta. Skipuleggja fyrst. Framkvæma síðan. Hvað er um að vera í höfði þeirra sem leggja á ráðin með félögum sínum að sparka litlum hundi á milli sín í íþróttatösku þar til hann deyr? |
posted by ErlaHlyns @ 20:20 |
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|