Hugleiðingar konu v. 6.0
 
26. jan. 2006
63. boðorðið: Þú skalt ekki girnast speltbrauð náunga þíns
Esekíel 4:9
En tak þér hveiti, bygg, baunir, linsubaunir, hirsi og speldi. Lát það allt í eitt ker og gjör þér brauð af.


Ég geri fastlega ráð fyrir að meðlimir þeirra tuttuguogtveggja trúarhópa sem skrifuðu undir yfirlýsinguna um daginn borði brauð sem gert er svona og aðeins svona.

Reyndar finnst mér þessi samsetning ekki sú gómsætasta. Spelt er þó auðvitað mjög hollt og gott. Stundum fæ ég mér speltbrauð. Þið megið samt ekki halda að ég sé kristin.

Ég held að ég hafi verið 8 ára þegar ég reyndi fyrst að lesa Biblíuna. Ég var allavega ekki orðin 9 ára því þá var ég flutt og ég man að Biblíuna las ég í Breiðholtinu. Reyndar komst ég ekki langt og fannst þessi bók heldur leiðinleg. Mér finnst samt mikilvægt að kunna skil á henni. Snemma á unglingsárunum var ég í bekk með stúlku sem er Vottur Jehóva. Ég þáði hjá henni Biblíukennslu en tók skýrt fram að ég væri aðeins að lesa Biblíuna með henni til að fræðast - ekki til að ganga í trúfélag hennar. Við vorum báðar sáttar. Vegna þessa kannast ég ekki við þær ofstækishugmyndir sem margir hafa um Votta Jehóva. Fjölskylda hennar var afar yndisleg og tilheyrði stúlkan þriðju kynslóð Votta.

Fyrst ég er komin með Biblíuna hérna við hlið mér er líklega tilvalið að rifja upp gömul kynni. Þegar fólk vitnar í Biblíuna sem heilagan sannleik finnst mér nefnilega svo ánægjulegt að geta vitnað í yfirlýst bull úr sömu bók og spurt af hverju "mínar" tilvitnanir séu hunsaðar á meðan aðrar séu í hávegum hafðar.

Ef ég fer aftur að lesa bráðlega lofa ég að segja ykkur frá því þegar ég rekst á tilvitnanir sem tengjast athöfnum meira krassandi en brauðát.
posted by ErlaHlyns @ 02:56  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER