3. maí 2006 |
Rauðhetta vs Mjallhvít |
Ég á rauða regnkápu. Hún er svaka flott. Fyrir nokkrum árum lét þáverandi kærasti minn þau orð falla að þegar ég væri í kápunni minnti ég hann á ógnvaldinn í myndinni Don´t Look Now. Hvað er rómantískara en að kærastinn segi að kona minni hann á persónu í hryllingsmynd?
Þess má til gamans geta að áætlað er að endurgerð þessarar myndar komi út á næsta ári.
Á laugardag virtist við hæfi að fara í regnkápu svo ég fór í Don´t Look Now-kápuna mína, eins og ég kalla hana. Hversu vel til fundið það var vissi ég ekki strax.
Leið mín lá á opnun listsýningar og þaðan á frumsýningu dansverks. Í einu horni sviðsins var stór stafli af eldrauðum eplum. Ég stóð mig að því að gleyma að horfa á dansarana og velta fyrir mér hvaða tilgangi þessi epli þjónuðu. Þegar líða tók að lokum verksins greip um sig mikill æsingur á sviðinu og ég hélt að allir ætluðu að ganga af göflunum. Það stóð heima og brátt voru allir farnir að kasta eplunum í veggina. Eplin þutu um loftið á ógnarhraða og fóru í klessu þegar þau mættu hörðum steinveggjunum. Við heyrðum *plaff* og eplamauk slettist á áhorfendur. Alla nema mig, það er að segja. Ég var nefnilega í regnkápu - rauðri regnkápu með hettu.
Það sem eftir lifði kvölds tíndi ég eplabita úr hári vinkonu minnar.
Ekki misskilja mig. Dansverkið fær fullt hús af stjörnum - já, eða eplum. |
posted by ErlaHlyns @ 01:44 |
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|