Hugleiðingar konu v. 6.0
 
1. nóv. 2006
,,Nauðganir á Íslandi - Hvað getum við gert?"
130 mál inn á borð
56 kærð
18 þar sem voru tveir eða fleiri gerendur
36 þar sem fórnarlamb var í áfengisdái

- Upplýsingar frá Neyðarmóttöku nauðgana fyrir árið 2005

Vinur minn minnti mig á málþingið í dag og spurði hvort við gætum verið samferða. Hann er samstarfsmaður minn, dyravörður á skemmtistað í miðborginni og sjálfstæðismaður. Mér fannst fengur í að hann vildi ólmur koma.

Nauðganir eru víst ,,heitasta" málið í dag, ef svo má að orði komast. Konur er hræddar og allir eru hræddir um konur.

Eyrún frá Neyðarmóttökunni tók fyrst til máls og Gísli frá Karlahópi Femínistafélagsins stóð sig vel að venju. Því næst var komið að fulltrúum stjórnmálaflokkanna.

Dagný frá Framsókn byrjaði á að afsaka sig og sagðist ekki hafa mikla þekkingu á þessum málaflokki. Það vakti því furðu mína að hún skyldi mæta sem fulltrúi flokksins. En kannski gerist þekkingin ekki meiri innan Framsóknar. Dagný vildi fleiri ljósastaura og setja sjálfsvörn inn í námsskrá grunnskólanna.

Sigurjón frá Frjálslyndum tjáði sig afar lítið og var ég hálf hissa þegar hann þakkaði fyrir sig. Mér fannst hann ekki hafa sagt neitt.

Kolbrún frá Vinstri grænum er hleypti lífi í umræðuna og tjáði sig af miklum móð. Lögreglunni finnst lítið til koma þegar dreifing á klámefni er kærð, þó slíkt sé refsivert samkvæmt lagabókstafnum. Fjölmiðlar einblína á fórnarlambið, lýsa útliti þess og hegðun, og láta eins og gerandinn sé ekki til. Lagaramminn gerir slíkt hið sama. Við eigum mikið verk fyrir höndum og því er mikilvægt að byrja á okkur sjálfum og þeim í næsta umhverfi okkar.

Guðrún frá Samfylkingunni samsinnti flestu því sem Kolbrún hafði sagt og fannst mér þær vera einu fulltrúarnir sem voru færir um að tjá sig á vitrænan hátt.

Bjarni frá Sjálfstæðisflokknum eyddi mestum sínum tíma í að lesa fyrir okkur upp úr tillögum til lagabreytinga, frumvarpi sem var lagt fyrir á síðasta ári en komst ekki í gegn. Silja Bára vakti athygli á þessu og spurði hvort það væri eitthvað líklegra að það yrði samþykkt nú. Bjarni sagðist þess fullviss og nefndi tvisvar að frumvarpið væri 47 blaðsíður.

En hvað sem frumvörpum og ljósastaurum líður þá er fólk hrætt. Sessunautur minn tók sem dæmi að ef við færum saman út að djamma gæti hann aldrei skilið við mig úti á götu og kvatt. Hann yrði ekki í rónni fyrr en ég væri komin heim, eða hið minnsta upp í leigubíl. Sem dyravörður segir hann farir sínar ekki sléttar og finnst honum ofbeldi í miðbænum alltaf vera að aukast. Ég hef þó aldrei verið mikið fyrir að hræðast og hafa áhyggjur. Mínir síðkvöldsgöngutúrar eru þó flestir með hundinum mínum þannig að ég er ekki alveg ein.

Eftir vinnu á föstudag fór ég að venju út með voffa. Við gengum Ægisíðuna um miðnættið og mættum örfáum hræðum. Þetta var allt fremur hefðbundið nema hvað að tveir þeirra manna sem ég mætti brostu til mín og buðum mér gott kvöld. Yfirleitt eru það bara gamlir karlar með staf og hatt sem gera slíkt og vakti þetta mig því til umhugsunar. Gat verið að þeir héldu að ég héldi að þeir hefðu eitthvað misjafnt í huga og vildu reyna að senda mér vinsamleg merki til að fyrirbyggja allan misskilning, svona eins og þegar hundur dillar rófunni til að sýna öðrum hundum að það sé ekkert að óttast? Ég hreinlega vona ekki því þá erum við sannarlega í vondum málum.
posted by ErlaHlyns @ 14:24  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER