Hugleiðingar konu v. 6.0
 
18. nóv. 2006
Patinn
Ég fletti upp orðinu psychopath í orðabók og var það þýtt sem geðsjúklingur. Vissulega er um að ræða einstakling með geðræn vandkvæði en skilgreiningin er mun þrengri.

Því sem á ensku kallast psychopath, anti-social personality og sociopath er oft skellt saman þó í raun sé stigsmunur á þeim. Sjálf gerist ég iðulega sek um slíkt hið sama og í daglegu tali nota ég orðið ,,pati" yfir þá sem þjást af þessum persónuleikaröskunum.

Margir halda að patar eigi helst heima á geðdeild. Það er alrangt. Persónuleikaraskanir er ekki hægt að lækna frekar en lélegan húmor. Það eru ekki til nein lyf við því að geta ekki sett sig í spor annarra og engin atferlismeðferð sem miðar að því að hjálpa fólki að stíga af guðastalli sínum.

Patinn setur eigin þarfir og langanir ofar öllu. Hann binst öðrum ekki tilfinningalegum böndum og eru samskipti hans mjög yfirborðsleg. Vegna vanhæfni sinnar til að upplifa viðeigandi tilfinningar hefur hann sérhæft sig í að herma eftir tilfinningaviðbrögðum sem hann sér hjá öðrum. Þannig hefur hann lært, fremur en fundið hjá sjálfum sér, að fólk verður dapurt þegar einhver deyr, en gleðst yfir fæðingu barns. Í sjálfmiðuðum heimi patans skiptir þetta litlu máli en hann hefur lært að með því að sýna viðeigandi viðbrögð aflar hann sér viðurkenningar innan hópsins.

Eins furðulega og það hljómar eru þessir aðilar oft afar vinsælir og sérstaklega hjá hinu kyninu. Þegar lýsa á framkomu þeirra dettur flestum í hug orðið ,,heillandi". Með því að kortleggja félagsleg samskipti verður honum augljóst að hrós virkar vel til að fá fólk til að vera sér vinsamlegt og koma sér á framfæri. Þannig brosir patinn og hælir fólki, jafnvel þeim sem honum finnst akkúrat ekkert til koma, því hann veit að það ber árangur. Honum er fullkunnugt um muninn á réttu og röngu, honum er bara alveg sama.

Það þarf því ekki að koma á óvart að patar lenda oft í kasti við lögin. Að þeirra mati eru þeir nefnilega yfir þau hafnir. Jafnvel þegar þeir hafa verið fundnir sekir eru þeir enn sannfærðir um réttmæti gjörða sinna og sjá ekki vitund eftir þeim, nema þá mögulega vegna þess að upp komst um plottið þeirra. Jafnvel þá eiga þeir til að útskýra hegðun sína sem ,,tæknileg mistök".
posted by ErlaHlyns @ 19:12  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER