1. apr. 2007 |
Spilakvöld |
Á laugardaginn fór ég í grillveislu og á spilakvöld í dýrasta hverfi Garðabæjar. Íbúðin var fáránlega dýr, innréttingingarnar brjálæðislega dýrar og heimilisbíllinn ofurdýr. En allt var þetta fáránlega flott. Flottara en ég hef áður séð, nema þá í Innlit-Útlit.
Íbúinn var líka fáránlega indæll - kurteis og almennilegur. Mér brá því þegar hann sagðist vera Sjálfstæðismaður. Ég ákvað þó að gefa honum sjens, enda hafði hann haft fyrir því að bjóða mér, vitandi að ég væri yfirlýstur femínisti. Það var samt ekki fyrr en þarna um kvöldið að hann vissi að ég væri líka Vinstri græn. Eins og það færi ekki saman...
Á meðan við spiluðum Trivial Pursuit var hlustað á Rás 2, til að fylgjast með nýjustu tölum frá kosningum í Hafnarfirði.
Þriðji þátttakandinn var virkur Samfylkingarmaður og sú fjórða sagðist óákveðin, en nefndi að faðir sinn kysi ávallt Framsókn. Við höfðum því nóg um að ræða.
Öll fögnuðum við því að stækkun álvers var hafnað. Öll nema Sjálfstæðismaðurinn, enda tjáði hann sig lítið um málið. Kannski er hann bara einn af þeim sem heldur að hann sé Sjálfstæðismaður, en á eftir að kynna sér málefni flokkanna. Það á við allt of marga.
Sjálfstæðismaðurinn óskaði eftir mér í lið sitt í Pictionary. Við töpuðum sárlega fyrir Samfylkingu og Framsókn. En sigur okkar í Trivial Pursuit var því sætari.
Við höfðum á orði að Pictionary snerist um listir á meðan í Trivial skiptu vitsmunir meira máli.
Því lít ég á Sjálfstæðisflokk og Vinstri græna sem sigurvegara kvöldsins. Og þessi orð mín ber ekki að túlka á nokkurn hátt.
Auðvitað vantaði Frjálslynda, Íslandshreyfinguna og aldraða, og skora ég nú á félaga þeirra hreyfinga í Trivial. |
posted by ErlaHlyns @ 02:09 |
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|