Hugleiðingar konu v. 6.0
 
12. des. 2006
Ertu ólétt?
Ég ákvað fyrir löngu að ef ég yrði spurð í atvinnuviðtali hvort ég hygði á barneignir myndi ég neita að svara slíkri spurningu og að sá atvinnuveitandi sem spyrði þannig væri ekki verður áhuga míns. Aldrei grunaði mig þó að ég yrði í raun spurð.

Fyrir örfáum árum hafði ég sótt stíft að fá viðtal á tilteknum vinnustað. Ég var handviss um að þetta væri vinna drauma minna og lét það ekki stoppa mig að ekkert vantaði starfsfólkið. Eftir nokkra mánuði fékk ég loks viðtal. Þetta gekk allt sinn vanagang þar til atvinnurekandinn sagði: Ég bara verð að spyrja, ertu ólétt?

Á mig kom mikið fát. Ekki var ég með bumbu og skildi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Ég íhugaði að segja að svona spyrði maður ekki og að þetta stangaðist á við jafnréttislög. Ég íhugaði líka hversu mikils virði það væri mér að fá þetta starf. Kannski var þetta prófraun til að sjá hversu sjálfstæð og ákveðin ég væri. Eiginlega datt mér það einna helst í hug, þar sem ég vissi að slíkir eiginleikar kæmu sér vel í starfinu. Svo fáránleg þótti mér spurningin. En ég þorði ekki að taka áhættuna. Eftir smá umhugsun svaraði ég auðmjúk: Nei, ég er ekki ólétt.

Eftir að ég svaraði fékk ég skýringu á spurningunni. Þá hafði atvinnurekandinn ,,frétt" að Erla nokkur Hlynsdóttir, sem hefði sótt um starf, væri með barni. Þegar ég síðan hóf störf fékk ég að heyra að þessi saga gekk fjöllum hærra á vinnustaðnum... En sögusagnir eru auðvitað engin afsökun fyrir misrétti.

Í dag veit ég að það er auðvelt að vera ungur og reynslulaus og koma með stórar yfirlýsingar sem maður síðan getur ekki staðið við.
posted by ErlaHlyns @ 12:04  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER