Hugleiðingar konu v. 6.0
 
20. jan. 2007
Hollywood draumar
Þegar ég var orðin þreytt á því að horfa á Animal Planet og Discovery Science fletti ég að vanda yfir þær sjötíu stöðvar sem ég hef aðgang að. Ein þeirra er Star! Þar rakst ég á þátt um ungar konur sem eru að reyna að koma sér á framfæri í Hollywood. Ein þeirra átti sér þann draum heitastan að verða gamanleikkona. Hún sagði áhorfendum frá því að hún gæti ropað þegar hún vildi, og ropaði því til sönnunar. Mér fannst það ekkert fyndið. Mögulega því ég get líkað ropað þegar ég vil. Þegar ég var lítil gerði ég mikið af því að auglýsa þennan hæfileika minn og sýndi fólki jafnvel hvað ég gat ropað oft í röð. Nú er ég hætt því.

En unga konan hafði meira til brunns að bera. Hún er nefnilega sérstök áhugakona um að elda á nærfötunum. Auðvitað sýndi hún áhorfendum hvernig á að bera sig að, og fór að steikja egg. Af því að ég get líka eldað á nærfötunum veit ég að það er afar sársaukafullt að steikja með beran maga. Mér fannst þetta uppátæki konunnar því einnig lítilfjörlegt.

Hvað gamanleikinn varðar þá fékk hún loks tækifæri til að komast á svið og segja brandarana sína. Það gerði hún í bikiníi. Það var mál manna og kvenna að brandararnir hafi ekki verið sérlega góðir og hló fólk frekar að henni sjálfri en meintum bröndurum.

Hollywood draumar mínir eru því farnir lönd og leið fyrst ekki dugir til að geta bæði ropað að vild og eldað hálfnakin.
posted by ErlaHlyns @ 11:34  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER