Hugleiðingar konu v. 6.0
 
16. feb. 2007
Femínistadjók?
Fyrir um sólarhring skrifaði ég Femínistanum, ritstjórn vefsíðu þeirrar er ekki vill koma fram undir nafni. Spurði ég hvort væri á dagskrá að birta nöfn þeirra er koma að ritstjórn vefritsins, og sagði að mér fyndist það rýra gildi skrifanna að enginn vildi kannast við að standa á bak við þau.

Í kjölfarið sagðist ég fagna því ef nöfnin væru á leiðinni, en ef sú væri ekki raunin, langaði mig að vita hverjar ástæður nafnleyndarinnar væru.

Áður hef ég skrifað ritstjórninni og fékk ég þá svar innan nokkurra klukkustunda.

Á mánudag skýrði ritstjórn frá því á vefsíðu sinni að hún væri upptekin við próflestur, en strax næsta dag birti hún grein þar sem meintu frelsi til að klámvæðast er fagnað. Því hlýtur ritstjórn að velja og hafna því sem hún tekur sér fyrir hendur hverju sinni.

Þess má geta að í þessu fyrra bréfi mínu, sem skrifað var þegar vefsíðan var stofnsett, sagðist ég fagna nýju femínísku bloggi, en þó vildi ég gagnrýna framsetningu könnunar á síðunni. Þar er fólk beðið að skilgreina sig eftir kynferði, og síðan hvort viðkomandi hafi sótt um launahækkun á síðastliðnu ári. Mér fannst að þarna vantaði fleiri svarmöguleika, þar sem niðurstöður gæfu villandi mynd ef tekið væri tillit til þeirra sem ættu þess ekki kost að biðja um launahækkun, s.s. á tilteknum opinberum stofnunum, og skekkti slíkt því niðurstöðuna. Var athugasemd minni vel tekið en ekki talið viðeigandi að bæta við valkostum þar sem slíkt myndi skekkja niðurstöður að teknu tilliti til þeirra svara sem þegar væru komin. En nóg um það.

Miðað við þá umræðu sem hefur verið hér á landi undanfarin misseri um eignarhald á fjölmiðlum held ég að það sé öllum ljóst að það skiptir máli í nafni hvers er talað.

Menntun, pólitísk afstaða og annar bakgrunnur hljóta að spila inn í hvernig fólk nálgast ólíka málaflokka. Bakgrunnurinn gerir okkur einstök. Ef skoðanir skiptu ekki máli í þeim skilningi sem fólk leggur í hugtök væru algildar alheimsskilgreiningar á öllu. Svo er þó ekki.

Ef dæmi séu tekin þá leggja sumir þá merkingu í frjálshyggjuna að hún líkist helst einhverskonar bóhemlífi, á meðan aðrir tengja hana við stuttklippta drengi í bláum jakkafötum. Það sama má segja um femínisma, fólk túlkar hann á ólíkan hátt. Ég hef talað við fólk sem telur hann samnefnara fyrir hatur á karlmönnum og kynlífi. Fleiri þekki ég þó sem kenna hann við jafnréttisbaráttu kynjanna. Hver hlýtur að sjá í hendi sér að þarna hlýtur persónulegt mat að koma við sögu.

Auk þess finnst mér nafnleysi skrifa minnka gildi þeirra, eins og áður kom fram. Eru þetta skrif sem enginn þorir að kannast við? Eða er þetta bara eitthvað djók?
posted by ErlaHlyns @ 00:56  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER