Hugleiðingar konu v. 6.0
 
6. feb. 2007
Viðskiptaval (boycott)
Líklega má segja að það hafi komið vel á vondan í dag. Þegar ég var beðin um að vera fundarstjóri á Hitti Femínistafélagsins sá ég mér ekki fært að neita. Undir einhverjum kringumstæðum hefði ég beitt fyrir mig þeim sannindum að ég hefði aldrei stjórnað fundi, en eftir að hafa hér á blogginu gagnrýnt fundarstjórn hjá Framtíðarlandinu gat ég engan veginn haldið því fram að ég vissi ekkert um fundarsköp. Því fór sem fór og ég held að mér hafi tekist að gera þetta sómasamlega.

Ein helstu tíðindi fundarins voru að femínistar, og mögulega fleiri, munu héðan í frá tala um viðskiptaval í stað enskuslettunnar boycott. Þeim sem deila ekki áhuga mínum á íslenskri tungu deila líklega heldur ekki ánægju minni með þessa þróun. Þó bið ég viðkomandi að lesa áfram. Þetta var nefnilega ekki allt.

Líklega kemur það fáum á óvart að íslensk fyrirtæki virðast ekki gefa mikið fyrir álit neytenda. Þetta hafa femínistar sannreynt, og hafa nú samanburð við önnur lönd. Nýlega var haldin keppni á vegum vefsíðu er kennir sig við Superman, þar sem stúlkur voru hvattar til að fækka fötum í þeim tilgangi að vinna utanlandsferð, ferð sem enn er óráðin samkvæmt nýlegum fréttaflutningi.

Einhverjir muna kannski eftir vefsíðunni Batman.is, sem hýsti meðal annars tengla á klámsíður, en henni var lokað eftir að rétthafar nafnsins mótmæltu þessari misnotkun þess. Nú hefur íslenskur femínisti sett sig í samband við Warner Bros, sem eiga einkaréttinn á nafninu Superman, og voru þeir afar þakklátir fyrir ábendinguna. Einnig ítrekuðu þeir að fyrirtækið myndi aldrei taka þátt í annarri eins lítislvirðingu og hvatt væri til á fyrrnefndum vef. Málið er nú til skoðunar hjá lögmönnum.

Sami femínisti hafði áður haft samband við Iceland Express eftir að það, í prentuðum auglýsingabæklingi sínum, mælti með flugi til Amsterdam fyrir þá sem áhuga hafa á vændiskaupum og hassreykingum. Mánuði síðar hafa engin svör borist frá fyrirtækinu. Forsvarsmenn Iceland Express virðast því ekki setja neytandann í öndvegi.

Talskona Femínistafélagsins, Katrín Anna, sem er viðskipta- og markaðsfræðingur, sagði fundargestum frá því að hún hefði ákveðið að sniðganga tímarit Birtíngs þar sem fyrirtækið kýs að birta auglýsingar frá strípistaðnum Goldfinger. Í öllum öðrum tilvikum hafi hún staðið við ákvarðanir sínar um viðskiptaval en gert undantekningu þegar Mannlíf birti viðtal við Guðrúnu Jónsdóttur, betur þekkta sem Rúnu hjá Stígamótum. Rúna hefur helgað sig baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi og fjallað um strippstaði í því sambandi. Þegar þessu hefti Mannlífs er flett sjá lesendur heilsíðuauglýsingu frá Goldfinger, en á næstu opnu hefst viðtalið við Rúnu. Þótti Katrínu Önnu, og öllum þeim fundargestum er tjáðu sig um málið, að þetta væri afar ósmekklegt. Hún gat því varla verið annað en ósátt við þá ákvörðun sína að gera undantekningu frá viðskiptavalinu.

Segja má að hægt væri að skrifa endalaust um það sem fram fór á fundinum. Í lokin verð ég hins vegar að bæta við að starf fundarstjóra er margslungið. Þó ég hafi haft það í hendi minni að tryggja að allt færi að settum reglum hafði ég þar með útilokað mig frá þátttöku í umræðu, enda ekki við hæfi að fundarstjóri setji sjálfan sig á mælendaskrá. Að teknu tilliti til fyrri skrifa minna er ég þó viðbúin faglegri gagnrýni.
posted by ErlaHlyns @ 23:09  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER