1. feb. 2007 |
Bankanum þínum er sama um þig |
Þegar ég upphaflega hóf háskólanám tók ég námslán. Eftir árið komst ég að því að það væri bara ekki málið. Þar sem ég eyddi afar takmörkuðum tíma yfir námsbókunum hundleiddist mér á daginn, en gat lítið af mér gert þar sem námslánin rétt dugðu fyrir brýnustu nauðsynjum. Því ákvað ég að hætta að taka þessi lán og fara að vinna. Þannig hefði ég eitthvað fyrir stafni á daginn, auk þess sem ég hefði meira á milli handanna og væri ekki að safna skuldum. Algjört win win situation.
Nema hvað. Eftir það hef ég flakkað á milli helstu námsbrauta félagsvísindadeildar og verið í 50-70%. Kerfið hjá LÍN virkar hinsvegar þannig að ef nemandi er ekki í 75% námi eða meira telst hann í raun hættur námi. Að tveimur árum liðnum þurfti ég því að fara að borga af láninu sem ég tók í byrjun. Þannig var ég í skóla, að vinna og borgaði niður námslán. Og þá kemur pönsjlænið.
Viðskiptabankinn minn, Íslandsbanki, leit einnig svo á að ég væri bara vinnandi kona og tók mig, að mér forspurðri, úr Námsvild og setti mig í Gullvild. Þessu tók ég þó ekkert eftir fyrr en nú nýlega þegar ég fékk sent yfirlit frá bankaum fyrir skattaskýrsluna.
Þegar ég hafði samband við bankann vegna þessa var mér sagt að það væri hagstæðara fyrir mig að vera í Gullvild en Námsvild. Ég sagði þeim að þar sem ég væri ekki að nýta mér neina þjónustu þeirra nema yfirdrátt, og að yfirdráttarvextir væru hærri í Gullvild en Námsvild, gæti það ekki staðist. Sá eini sem græddi á þessu fyrirkomulagi væri bankinn.
Nú rignir yfir mig afsökunarbréfum frá bankanum, verið er að reikna hversu mikið ég hef ofgreitt í vexti, og mun sú upphæð verða lögð inn á mig innan tíðar.
Ég yrði samt ekki hissa á því ef starfsfólkið væri að hlæja að mér þessa stundina þar sem ég er enginn stórviðskiptavinur og því engar himinháar fjárhæðir sem ég hef getað ofgreitt. En rétt skal vera rétt. |
posted by ErlaHlyns @ 15:53 |
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|