Hugleiðingar konu v. 6.0
 
1. feb. 2007
Framtíðarlandið - félagafundur
Vara skal dygga lesendur við því að þessi færsla er lengri en þær flestar hér. En með það í huga að sumir eyða tíma sínum í að lesa hvað Björn Bjarnason gerir yfir daginn, treysti ég því að einhverjir eyði nokkurri stund í þetta.

Seinnipart dags sat ég lokaðan fund meðlima Framtíðarlandsins. Var þar rædd sú hugmynd að bjóða fram til næstu Alþingiskosninga, og voru skoðanir afar skiptar. Meðal annars voru uppi vangaveltur um að erfitt væri að ræða mögulegt framboð þar sem engin stefna lægi á borðum. Við því fengust þau svör að stefna hefði þegar verið mótuð, og að hana væri að finna í möppu sem ein forsvarskonan hefði undir höndum. Fyrir fundinn hefði þó verði ákveðið að halda þessari stefnu frá meðlimum Framtíðarlandsins til að koma í veg fyrir að fjölmiðlar tættu hana í sig. Af þessu ræð ég að skipuleggjendur gerðu ráð fyrir að fólk myndi tjá sig um efni þessa fundar á opnum vettfangi, og geri ég það því óhikað.

Áður en ég mætti á fundinn vonaði ég að þar yrði komist að þeirri niðurstöðu að framboð væri ekki lausnin. Mun heillavænlegra væri að efla grasrótarstarfið og virkja fólk (já, virkja!) sem starfar innan stjórnmálaflokkanna til að berjast enn frekar fyrir umhverfismálum þar. Framboð Framtíðarlandsins væri einungis til þess gert að sundra frekar því óánægjufylgi sem myndar stjórnarandstöðuna og því einna líklegast til að styrkja stöðu núverandi stjórnar.

Þetta er það sem ég vildi heyra. Nokkrir fundarmanna voru á þessari skoðun og komu með ráð til að kynna umhverfismálin enn frekar fram að kosningum, svo sem að gefa út tímarit. Núna er auðvitað bara korter í kosningar, eins og sagt er, og því erfitt að mynda, móta og kynna heildræna stefnu ætlaðs framboðs.

Mér virtist sem helstu stuðningsmenn framboðs væru hægrisinnaðir, líklega það sem einhverjir kalla hægri græna; nokkuð sem í mínum huga eru beinlínis refhvörf, eða oxymoron.

Eftir að fundarsetjandi lauk máli sínu opnaði fundarstjóri mælendaskrá. Hann sá mig greinilega ekki áður enn hann tilkynnti örstuttu síðar að mælendaskrá væri lokað, en ég lét það mig litlu skipta. Hann sagðist nefnilega ætla að opna hana aftur seinna. Þegar áður tilkynntir mælendur höfðu lokið sér af sagði fundarstjóri að eftir að hann hefði lokað mælendaskrá hefðu margir „laumað“ sér inn á hana og því væru nú komnir það margir á skrá að ekki væri hægt að taka við fleirum. Þetta gagnrýndi ég að sjálfsögðu, og fannst undarlegt að fundarstjóri sjálfur færi ekki að fundarsköpum. Þó ég hefði jafnvel blikkað hann á meðan aðrir komu sínu á framfæri hefði það lítið stoðað því ekki þekkti ég hann og hann ekki mig. Líklega hafa innvígðir og innmúraðir hugsað þetta öðruvísi.

Eftir að ég hafði gagnrýnt fundarstjóra fyrir að fara ekki að fundarsköpum baðst hann afsökunar og bauðst til að setja mig á mælendaskrá. Ég sagði mér það ekki fært þar sem ég vissi að ég þyrfti að yfirgefa fundinn brátt, en eins og áður hafði komið fram var mælendaskráin orðin helst til full miðað við áætlaðan fundartíma.

Þegar mælendur höfðu hafið mál sitt og ég var að taka saman föggur mínar kom að mér ókunnur maður, sem hafði áður tekið til máls, og spurði leyfis um að fá að leggja til við fundarstjóra að ég fengi að tala næst, að gefnum rökum mínum. Þetta fannst mér auðvitað fallega gert, langaði helst að benda viðkomandi á að ég myndi tala gegn málstað hans, en samþykkti að lokum með semingi, enda vissi ég að í meginmáli hafði málflutningur minn þegar komið fram. Ég vildi einungis taka undir.

Það sem ég sagði var að mestu endurtekning á mörgu sem áður hafði verið sagt, og á því sem ég nefni hér framar. Einnig vitnaði ég í orð Dofra Hermannssonar sem sagði að hann hefði nýverið fengið fregnir af því að Margrét Vilhjálmsdóttir, frammákona í Framtíðarlandinu, hefði aldrei kynnt sér stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum, ritið Fagra Ísland sem hefur verið aðgengilegt almenningi í lengri tíma.

Nú er ég ekki Samfylkingarkona en geri mér fulla grein fyrir að stefnumótun þeirra í umhverfismálum má taka á tvo vegu. Það veit ég vegna þess að ég hef kynnt mér málefni þeirra, ólíkt sumum innan Framtíðarlandsins. Annars vegar má segja að Samfylkingin hafi samþykkt hinar og þessar virkjanir og sé því ekki mark á takandi. Stefnuskrá um Fagurt Ísland sé aðeins til þess gerð að fá fleiri atkvæði, en ekki sett fram af heillindum. Hins vegar má segja að með þessari stefnuskrá sé fylkingin einmitt að bregðast við vilja almennings, að breyting á stefnu sé ekki til þess eins að fá atkvæði heldur vegna vilja þeirra sem innan fylkingarinnar starfa; að þetta sé mál sem hefur alltaf verið áhugi fyrir en ekki fengið hljómgrunn hjá hæstráðendum fyrr en nú.

Bent var á báðar þessar hliðar á fundinum, en enginn gat neitað fyrir að Vinstrihreyfingin-grænt framboð hefði frá upphafi beitt sér af hörku fyrir þessum málaflokki.

Einnig má benda á að enginn af stjórnarmönnum sá ástæðu til að taka upp hanskann fyrir Margréti, sem var fjarstödd - hvorki eftir að Dofri talaði, né ég. Ég verð að segja að mér þykir í hæsta máta undarlegt að þeir sem helst beita sér fyrir Framtíðarlandinu hafi ekki gefið sér tíma til að kynna sér stefnumál núverandi stjórnmálaflokka hvað varðar umhverfismál, og þykir mér sæta tíðindum ef hægt er að meta forsendur fyrir framboði án þess.

Niðurstaða mín er skýr. Á meðan ég get valið að kjósa flokk sem beitir sér fyrir femínisma, gegn stríðsreksri og fyrir náttúruvernd, hef ég engan áhuga á flokki sem beitir sér fyrir náttúruvernd eingöngu. Ég þarf ekki að hugsa mig tvisvar um.
posted by ErlaHlyns @ 21:09  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER