18. mar. 2007 |
Barn síns tíma? |
Bókin sem nú er á náttborðinu er Vinsældir og áhrif eftir Dale Carnegie. Carnegie þessi er, sem kunnugt er, heimsþekktur fyrir afburða ræðumennsku og námskeið þau sem hafa hjálpað fjölda fólks við að bæta framkomu sína og tjá sig með áhrifaríkari hætti.
Á fyrstu blaðsíðum bókarinnar segir að hún eigi að geta orðið til þess að lesendur auki vinsældir sínar, áhrif og afköst. Heill kafli er tileinkaður aðferðum til að snúa fólki á sitt band og í enn öðrum kafla má finna fjölda aðferða til að breyta fólki án þess að móðga það eða espa.
Þó að bókin hafi upphaflega komið út árið 1936 á boðskapur hennar fyllilega við í dag. Að flestu leyti. Við erum jú alveg jafn mannleg nú og fyrir hálfri öld.
Ég er nú að lesa bókina í annað sinn en fyllist aftur innblæstri og eldmóð. Alveg þar til ég kem að síðasta kaflanum. Honum er ætlað að auka hamingju heimilislífsins og getur fólk lesið sér til um aðferðir til þess, konur á einum stað, karlmenn á öðrum. Það er nefnilega ekki sama hvort er.
Húsbóndi: Ertu svo nærgætinn að þú berir matreiðslu og bústörf konu þinnar ekki saman við heimilisstörf móður þinnar eða nágrannakonu, nema þá konu þinni til lofs?
Þakkar þú henni fyrir greiða, sem hún gerir þér, eins og þegar hún festir í þig hnapp, stoppar sokkinn þinn eða lætur hreinsa fötin þín?
Lætur þú hana hafa peninga, sem hún getur eytt að vild, auk þess fjár, sem hún fær til heimilisþarfa?
Og húsmóðir: Leggur þú þig í framkróka, til þess að gott samkomulag haldist milli þín og móður hans og frænda?
Sérð þú fyrir tilbreytingu í mataræði, svo að maðurinn þinn megi oft eiga von á einhverri nýbreytni eða einhverju hnossgæti?
Gerir þú þér far um að læra hverja þá dægradvöl, sem honum þykir gaman að?
Sveigir þú skoðanir þínar til samræmis og samkomulags við hann?
Eftir á að hyggja virðist ljóst að bókin hafi verið skrifuð fyrir karlmenn, karlmenn sem myndu lesa síðasta kaflann fyrir konu sína á meðan hún stoppar í sokkana. Hvergi annars staðar er talað um konur. Engu að síður finnst mér hinir kaflarnir eiga fullt erindi til kvenna í dag. Það er kannski spurning að endurþýða þessa bók, svona eins og nú á að gera við Biblíuna. Þetta er jú einskonar Biblía sölumanna. Og sölukvenna.
Viðbót kl 23.20. Ég var að gúggla bókina og sá að hún kom út í nýrri þýðingu árið 2004. Ef einhver hefur þá þýðingu undir höndum væri gaman að heyra hvernig síðasti kaflinn hljómar. |
posted by ErlaHlyns @ 20:29 |
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|