Hugleiðingar konu v. 6.0
 
10. mar. 2007
Mér til skammar
Við sátum og spiluðum Trivial Pursuit, og ég átti að svara. Vinur minn sagði í gríni að ég yrði að vita svarið við spurningunni, sem var um kvennabókmenntir. Annars yrði ég mér til ævarandi skammar. Til skýringar sagði hann vini sínum að ég væri sko femínisti. Vinurinn spurði mig þá hvað mér fyndist um Smáralindarmálið svokallaða, og ég nánast hreytti út úr mér að mér fyndist þetta helvítis bull. Hann bað hikandi um nánari skýringu á svari mínu, hvað það væri sem ég áliti bull, og ég skýrði að mér fyndist vitleysa að lesa klámvísanir úr forsíðu fermingabæklingsins. Hann sagðist hafa haldið að mér fyndist bull að birta svona klámfengna forsíðu. Af því að ég væri femínisti.

Þetta var í annað skiptið þenna dag sem ég var spurð þessarar spurningar. Og ég man ekki hversu oft ég hef fengið hana síðustu daga. Ég er þreytt og pirruð á því að fólk haldi Guðbjörgu Hildi Kolbeins hafa sagt það sem allir femínistar aðeins hugsuðu.

Mér fannst það góður punktur þegar bent var á að mögulega hefði þeim í klámiðnaðinum tekist svo vel til við að herma eftir kátum unglingsstúlkum að þegar við loks sæjum myndir af þessum stúlkum færu sumir strax að hugsa um klám.

En umrædd forsíða finnst mér ekki annars ekki mjög fermingaleg. Ég á erfitt með að ímynda mér að þær séu margar fermingastúlkurnar, sér í lagi þær sem farnar eru að ganga á háum hælum, sem hafi mikla löngun til að beygja sig brosandi eftir bangsa sem gerður er eftir fígúru úr Bubbi byggir-seríunni. Allavega ekki þegar ljósmyndarar eru í grenndinni.

Það er þó fleira sem mér finnst bull, nefnilega öll umgjörð fermingarinnar. Sem dæmi um það má nefna að í þessu 66 blaðsíðna fermingablaði þekja Staðreyndir um ferminguna hálfa síðu og einnig má lesa hálfrar síðu viðtal við dómkirkjuprest, álíka langt og viðtal við innkaupastjóra NTC. Þema blaðsins eru efnisleg gæði; Tölvur, skartgripir, brúnkumeðferðir, gervineglur og förðunarvörur.

Ekki má gleyma stjörnuspánni í síðari hluta blaðsins þar sem segir: Nauðsynlegt er fyrir Fiskinn að eiga verkjalyf í töskunni, og þar undir er mynd af Panodil-boxi, merktu Lyfju.

Og varla er hægt að skrifa um þetta blað án þess að nefna tískuþátt Mac þar sem Svala Björgvins birtist í ýmsum dúkkugervum, undir yfirskriftinni Barbie loves Mac er ný litalína sem kemur aðeins í takmörkaðan tíma og er sérstaklega hönnuð fyrir allar lifandi dúkkur.

En hvað um það. Spurningunni um kvennabókmenntirnar gat ég ekki svarað. Skömm mín er því mikil í dag.
posted by ErlaHlyns @ 00:53  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER