7. mar. 2007 |
Fáfræði Húnvetninga |
Upp á síðkastið hef ég velt fyrir mér hvort ég sé efni í alvöru blaðamann. Ég skáletra alvöru því svo virðist sem skoðanir mínar og sums fjölmiðlafólks á starfi blaðamanna séu heldur ólíkar.
Dæmi um þetta er viðtal við Jónu Ingibjörgu í Fréttablaðinu þar sem hún segir nokkura femínista hafa opinberað fáfræði sína og fordóma er varða kynhegðun mannsins, í tengslum við klámráðstefnu þá er fyrirhuguð var.
Á engan hátt er gengið á Jónu Ingibjörgu hvernig viðkomandi femínistar gerðu það, og ansi auðvelt að slengja fram slíkum fullyrðingum, enda heldur margir femínistar á Íslandi. Hver veit nema þetta ætti við um einhverja þeirra, án þess að nokkur hefði gert athugun á því?
Mér hefur ávallt fundist að rétt sé að biðja viðmælendur um skýringar á því sem þeir láta frá sér. Einnig finnst mér eðlilegt að haga fyrirsögnum í samræmi við texta.
Ef einhver segði Jón Jónsson og Guðmund Guðmundsson hafa hagað sér bjánalega myndi ég aldrei sætta mig við fyrirsögnina Heimskir karlmenn. Það virðist þó söluvænlegt og kannski einkennandi fyrir alvöru blaðamenn að halda í það sem helst selur.
Mögulega er viðhorf mitt ekki nógu krassandi. Ég forðast nefnilega að draga fólk í dilka. Fátt vekur með mér meiri hroll en staðalímyndir, en þær eru víst það sem selur. Staðalímyndir eru þægilegar. Þær gera ekki kröfu til hugsunar.
Með þessari fyrirsögn í Fréttablaðinu er 15 ára frænka mín úthrópuð fráfróð, þar sem hún er femínisti, og það finnst mér ólíðandi. Fyllyrðingin Sumir femínistar fáfróðir væri mér meira að skapi en heldur óþjál. Spurning að setja allavega spurningamerki á eftir þeirri fullyrðingu er sett er fram.
En er það virkilega efni í fyrirsögn að tveir eða þrír nafnlausir femínistar séu vændir um fáfræði? Eitthvað frekar en tveir eða þrír Akureyringar? Myndi fyrirsögnin þá vera Fáfræði Akureyringa? Myndi Fréttablaðið kjósa að birta slíka fyrirsögn á grundvelli orða einnar manneskju um hugmyndir tveggja annarra?
Alvöru blaðamennska. Kannski er það ekkert fyrir mig. |
posted by ErlaHlyns @ 00:59 |
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|