Hugleiðingar konu v. 6.0
 
21. feb. 2007
Sigmundur Ernir og sadisminn
Sigmundur Ernir hafði í gær samband við Katrínu Önnu, talskonu Femínistafélagsins, og sá ástæðu til að spyrja hana hvort hún væri á móti kynlífi. Ég er eiginlega hálf orðlaus yfir þessari vitleysu í manninum og trúi varla að hann viti ekki betur.

Þetta minnir mig á þegar Fréttablaðið talaði við áðurnefnda Katrínu Önnu vegna viðskiptavals hennar (boycott) og sagðist hún hafna tímaritum Birtíngs þar sem þar væri kosið að birta auglýsingar frá strípistöðum. Fréttablaðið hafði einnig samband við Mikael Torfason til að fá álit hans á þessum orðum hennar, og var haft eftir Mikael að hann vissi ekki hver þessi kona væri. Mér þykir hreinlega ótrúverðugt að aðalritstjóri stærstu tímaritaútgáfu Íslands sé svona illa að sér. Ekki legg ég þó mat á hvort þessi orð séu frá honum sjálfum komin eða frá Fréttablaðinu.

En aftur að Sigmundi Erni. Sem kunnugt er kemur hann að ritstjórn Kompáss sem fjallaði um Byrgið, eins og frægt er orðið, og var þar sérstaklega talað um þátttöku Guðmundar forstöðumanns, í BDSM. Þessu var mótmælt í Fréttablaðinu af Geir Guðmundssyni, sem setið hefur í stjórn félagsins BDSM á Íslandi, þar sem hann sagði ofbeldi og misnotkun af því tagi sem Guðmundur virtist sekur um, ætti ekkert skylt við BDSM. Til að svara þessu sagði Sigmundur að allir vissu um hvað BDSM snerist.

Eftir að ég tók viðtal við Geir um BDSM fyrir tímaritið Ísafold ákvað ég að BA-ritgerð mín yrði um BDSM. Fannst mér það henta afar vel þar sem ég hafði átt í mestu vandræðum með að finna mér ritgerðarefni, og var á þessum tíma að kynna mér BDSM eftir bestu getu.

Gagnrýni á ritgerðina hef ég þó þegar fengið hjá leiðbeinanda mínum, Helga Gunnlaugssyni, og líkaði honum ritgerðin vel. Þess má geta að gagnrýni má líta á sem rýni til gagns. Fyrir þá sem ekki þekkja Helga hafa fjölmiðlar gjarnan leitað til hans þegar þörf er fyrir álit sérfræðings á ýmsum samfélagslegum málefnum.

Þegar við Helgi ræddum efni ritgerðar minnar sagði ég honum frá þessum ummælum Sigmundar, og furðu minni á þeim. Helgi tók heilshugar undir, og sagði almenning alls ekki vera með á hreinu hvað BDSM væri.

Eftir að greinin birtist í Ísafold hefur þetta þó vonandi breyst eitthvað.

Á laugardag mun ég síðan útskrifast, með gráðu í félags- og fjölmiðlafræði, og eins og einhverjir gætu sagt, sérfræðiþekkingu á BDSM.
posted by ErlaHlyns @ 23:24  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER