25. feb. 2007 |
Bleikt og rautt |
Pakkaborðið var bleikt og rautt, utan einn blómvönd, og fengu því margir á tilfinninguna að þeir hefðu óvænt tekið þátt í einhverju þema.
Það er skondið hvað litlu hlutirnir gleðja mikið, og það kætti mig mjög að fólk hafði uppáhalds liti mína í huga þegar gjafaumbúðir voru valdar.
Já, meira að segja ónefndi veislugesturinn setti sína gjöf í bleikan pappírspoka. Þegar hann rétti mér pokann sagði hann kæruleysislega: Ég vona að þú eigir hana ekki! Ég kíkti í pokann og sá að hann gaf mér bók. Hann lét þetta hljóma eins og hann væri að gefa mér nýjustu bókina eftir höfund Alkemistans, en þegar betur var að gáð var þetta bókin Deviant Desires, sem fjallar um óvenjulegar kynlífslanganir. Líklega í stíl við ritgerðina mína. Kannski halda nú margir að ég eigi heilt bókasafn um slíkt efni. Þeim til fræðslu eru þær bækur mínar nú orðnar þrjár!
Ég leyfði bókinni að vera í pokanum í nokkra stund og opnaði ekki gjafirnar fyrr en flestir fjölskyldumeðlimir voru farnir. Áður gantaðist þó bróðir minn með að hann ætlaði að hefja upplestur á völdum köflum hinnar ósæmilegu BA-ritgerðar. Ég þakkaði bara fyrir að hann vissi ekki af bókinni!
Þegar ég loks opnaði pakkana lét ég fylgja með hverjir hefðu gefið mér hvað. Stundum las ég á kortin, stundum ekki. Í eitt skiptið lét ég nægja að lesa upphátt: Það er ótrúlegt hvað getur orðið úr Hlemmurum!
Þegar ég hafði látið þar við staðar numið hrópaði annar kortaskrifarinn til hins: Ég sagði þér að hún myndi kannski lesa upphátt á kortin!! En já. Ég hélt afgangnum fyrir mig.
En mér þótti alveg sérstaklega vænt um að fá bæði skrif og gjafir sem ekki eru við hæfi, tja, allra. Svona geta útskriftarveislur orðið dónalegar.
Henný, einn veislugesta, hafði á orði að þegar hún sagði fólki hvert hún væri að fara hefði hún heyrt: Já, Erla Hlynsdóttir! Ég les oft bloggið hennar!
Mér fannst auðvitað mikið til þessara fregna koma, sér í lagi því ég kannast ekkert við konu þá er fannst ástæða til að nefna þetta.. En þar sem Henný er afar skemmtileg og klár kona, geri ég ráð fyrir að þessi Edda Ýr sé það líka. Það bara hlýtur að vera, ef hún er fastagestur hér! |
posted by ErlaHlyns @ 01:23 |
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|