Hugleiðingar konu v. 6.0
 
16. apr. 2007
Af kristnum gildum
Þeir eru ófáir foreldrarnir sem ljúga því að vinum og vandamönnum að þeir séu að fara að ferma. Auðvitað eru það prestarnir sem sjá um að taka ómótuð ungmenni í kristinna manna tölu, samfélag fullorðinna.

Þegar ég fermdist hugsaði ég lítið um trúmál. Mun minna en ég geri nú. Eiginlega má segja að trúarbrögð séu eitt af áhugamálum mínum í dag.

Þegar ég fermdist gerði ég það af því að allir aðrir gerðu það. Mér fannst það rökrétt, svona eins og að 9. bekkur kemur á eftir 8. bekk. Meiri hugsun lagði ég ekki í þetta heiti mitt, og hélt kökuboð fyrir fólk sem gaf mér hinar ýmsu fræðibækur.

Gjafirnar opnaði ég ekki í veislunni sjálfri, og lét mamma mig síðar hringja í veislugesti og þakka fyrir mig. Annað væri dónaskapur.

Þó ég hafi verið óhemju feimið barn gerði ég mér grein fyrir því að þetta væri það eina rétta. Því hafði ég samband, hikstandi og stamandi, og gerði þakklæti mitt opinbert.

Ég leyfi mér að efast um sögusagnir þess efnis að fermingarbörn, eða foreldrar þeirra, séu nú farin að senda út boðskort þar sem tekið er fram að gjafir undir tiltekinni upphæð séu afþakkaðar. Samt finnst mér eins og gjafirnar skipti enn meira máli nú en þá.

Enn sem komið er hefur mér aðeins verið boðið í tvær fermingarveislur. Annað fermingarbarnið tjáði mikið þakklæti vegna gjafar minnar. Hitt hefur enn ekki haft samband. Í krónum talið var verðmæti gjafanna mjög svipað, um 2500 kr. Þó er ég ekki frá því að síðarnefnda fermingarbarnið hafi fengið ívið hagnýtari gjöf.

En þessi reynsla mín af samskiptum við fyrrnefnd fermingarbörn, eða foreldra þeirra, sem einskorðast ekki við fermingargjafirnar, hefur leitt til þess að annað þessara fyrrum fermingarbarna fær enn afmælisgjafir frá mér, en hitt ekki. Og mér finnst það bara ósköp eðlilegt.

Taka skal fram að ég tilkynnti foreldrunum það fyrirfram að ég myndi ekki gefa barni þeirra, eða unglingi, fleiri gjafir. Og það virtist ekki koma þeim á óvart. Kannski hafa þau haldið að ég væri bara svona svakalega blönk.
posted by ErlaHlyns @ 20:54  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER