Hugleiðingar konu v. 6.0
 
25. apr. 2007
Dýragarðsbörnin
Mér finnst hvítabjörninn Knútur afar sætur, en sætari finnst mér þó pandabjörninn Tai Shan.

Eitt sinn var mér boðið til New York. Ég afþakkaði. Líklega skiptir máli í þessu samhengi að ég var stödd í Washington þegar boðið kom.

Við vorum þar á ferð, fjölmiðlafræðinemar við HÍ, og heimsóttum ýmsa merka staði, s.s. Washington Post, National Public Library og Library of Congress. Í vikulok höfðum við síðan frjálsar hendur og nokkrir ákváðu að fara til New York. Meðal þeirra var hjásvæfan mín, eins og hún kallaði sig, en rúmin á hótelinu voru það stór að við sváfum tvö og tvö saman. Ég var greinilega ágæt hjásvæfa því þessi unga stúlka bauðst til að borga ferðakostnað og uppihald, ef ég aðeins kæmi með til New York. Ég afþakkaði pent með þeim orðum að ég yrði að fara í dýragarð.

Útundan mér heyrði ég að fólki fyndist heldur undarlegt hversu æst ég var í að fara í dýragarð. Að lokum fékkst þó einn herbergisfélaginn til að koma með mér. Þegar ég nánast missti úr mér augun við að sjá tígrisdýrin datt henni í hug að spyrja lykilspurningarinnar: Hefurðu aldrei komið í dýragarð? Ég sagðist oft hafa farið í Húsdýragarðinn.

Það var sumsé í þessum dýragarði sem ég sá Tai Shan, þá 9 mánaða krútt. Af hverju hann er ekki jafn mikil fjölmiðlastjarna og Knútur get ég engan veginn skilið.

Kannski myndi vegur hans aukast í íslenskum fjölmiðlum ef hann bara fengi íslenskt nafn. Hvað með Tjörvi Snær?
posted by ErlaHlyns @ 06:15  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER