Hugleiðingar konu v. 6.0
 
3. maí 2007
Allt er fertugum fært
Það er kannski ekki í frásögur færandi, en ég var í litun og plokkun um daginn. Já, ég er einn af þessum hégómlegu femínistum sem veltir fyrir sér í hvaða föt skal fara á morgnana og sést varla án maskara. Ég veit – þvílík mótsögn!

En já, ég var á snyrtistofu. Áður hafði ég farið á sömu stofuna og meðan á fegrunarmeðferð stóð hvíslaði snyrtifræðingurinn spyrjandi að mér hvort ég notaði ekki góð krem. Sem fyrrum sölukona taldi ég mig vita að þetta væri eitthvað sem starfsfólki stofunnar væri uppálagt að gera, reyna að selja viðskiptavinum meira en þeir ætluðu að kaupa í fyrstu.

Hún benti mér á að ég væri með fílapensla á nefinu og því væri mikilvægt að ég hugsaði vel um feitu húðina mína. Ég sagðist nota afar góð krem, þó kremin mín væru af ódýrustu gerð, og afþakkaði pent frekari upplýsingar um þær vörur sem boðið væri uppá. Þá sagði hún mér að kosturinn við að vera með feita húð væri sá að ellimerki kæmu síður í ljós. Eins og mér ætti að líða betur.

Ég fór heim og skoðaði fílapenslana gaumgæfilega, en lét gott heita.

Mér fannst þessi tegund sölumennsku nett uppáþrengjandi en bjóst við að svipað væri uppi á teningnum annars staðar, svo ég fór aftur á sama stað þegar liturinn fór að dofna.

Annar snyrtifræðingur, sama spurning, sama svar. Þessi starfsstúlka lét sér þó ekki segjast, og þegar ég borgaði fyrir þjónustuna gaf hún mér prufu – prufu af öldrunarvarnakremi.

Ég fór heim, brosti og gretti mig framan í spegilinn. Og viti menn! Þarna voru þær, blessaðar hrukkurnar. Eins gott að snyrtifræðingurinn kom mér niður á jörðina.

Aldrei hef ég verði þekkt fyrir að hafa áhyggjur af hrukkum eða nokkru slíku. Og þó fæstir trúi því, hlakka ég til að verða fertug. Þvílík viska sem fólk viðar að sér á hverju einasta ári. Ég hugsa með mér að miðað við allt sem ég veit nú, þá hljóti ég að verða algjör spekingur um fertugt.

Fertugsafmælið er eftir 11 ár og 5 mánuði!
posted by ErlaHlyns @ 23:08  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER