26. maí 2007 |
Klepptækar? |
Þegar ein nánasta vinkona mín spurði hvort ég vildi vera deitið hennar á aldarafmæli Klepps þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um.
Akkúrat á þessari stundu er hún að gæsa vinkonu sína. Fyrir örfáum árum tók ég þátt í gæsun hennar og þar sem við sátum á Kaffi Victor að þamba bjór ákváðum við vinkonurnar að rifja upp fyrstu kynni okkar við gæsina.
Ég sagði auðvitað sem satt er: Við kynntumst á Kleppi.
Vinkonurnar vissu auðvitað allar að þarna unnum við saman en ókunnugum bregður oft við þessa staðreynd.
Aldrei gleymi ég þeirri stundu sem markaði tímamót í kynnum okkar Unu en áður hafði ég aðeins brosað feimnislega til hennar eins og nýrra starfsmanna er siður.
Hún var á næturvöktum og eitt kvöldið þegar ég var að fara heim bauð hún mér og öðrum starfsmanni að taka bílinn sinn í stað þess að þvælast með strætó. Við kæmum bæði á morgunvakt daginn eftir.
Ég sagðist varla kunna að keyra, ég væri með bílpróf en hefði ekkert ekið eftir að ég tók það. Hinn starfmaðurinn var ekki með slíkt próf, en Unu var nokk sama. Þetta er eldgamall bíll sem ég fékk á sjö þúsund kall. Takiði hann bara.
Ég hafði ekki aðgang að bíl og fannst þetta fullkomið tækifæri til að æfa mig. Það var hvort eð er að koma nótt og fáir úti að aka.
Auðvitað gæti einhver ímyndað sér að þarna hafi Una ætlað að losna endanlega við samstarfsfólk sitt en það var ekki raunin. Þetta var bara eitt fjölmargra dæma um fallegt hjartalag hennar og hvernig hún hefur tileinkað sér að hugsa fyrir utan kassann.
Farþegi minn fylltist ótta strax þegar ég reyndi að taka af stað á bleiku Hondunni. Ég drap líklega fimm sinnum á henni áður en það tókst, og ekki minnkaði hræðsla hans á leiðinni heim. Ég var ekkert að grínast þegar ég sagðist ekki hafa ekið síðan ég tók bílprófið. Hann afþakkaði far í vinnuna daginn eftir og eiginlega var ég bara fegin. En uppfrá bílaláninu mikla urðum við Una hinir mestu mátar.
Ég hlakka mikið til kvöldsins. Það verður gaman að fagna þessum áfanga með Unu en ég er alveg jafn spennt fyrir því að gæða mér á þessum svokallaða Kleppsmat. |
posted by ErlaHlyns @ 15:15 |
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|