100 kíló af snyrtivörum söfnuðust á Menningarnótt fyrir gjörninginn Litróf íslenska kvenna sem nær hámarki á kvennafrídaginn í október.
Síðar í dag afhjúpar listakonan Abba listaverk gert úr augnskugga og augnblýanti. Abba, sem heitir fullu nafni Aðalbjörg Þórðardóttir, afhjúpar verkið á Stígamótum klukkan 12.15 stundvíslega.
Augnskuggi og augnblýantur er heldur óhefðbundinn efniviður en verk Öbbu er það fyrsta sem unnið er með þeim snyrtivörum sem söfnuðust fyrir kvennafrídaginn komandi.
Á Menningarnótt fór ég í tjald kvennahreyfingarinnar þar sem Skotturnar söfnuðu snyrtivörunum og gaf glimmergel, meik og skínandi sanserað naglalakk. Allt var tínt til.
Á myndinni sem fylgir hér með má einmitt sjá mig setja snyrtivörurnar í söfnunarkassann. Já, þetta var Kodak-móment. Við hlið mér er einn af hugsuðunum á bak við Litróf íslenskra kvenna, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir. Hinum megin við myndavélina er sameiginleg vinkona okkar og einnig mikill hugsuður, Sólrún Ósk Lárusdóttir.
 Söfnunin gekk svona líka vel og nú hefur sköpunin hafist. Eftir að Adda afhjúpar verk sitt skorar hún á aðra listakonu að taka við kyndlinum/varablýantinum og vinna næsta verk.
Konurnar frjóu láta þó ekki þar við sitja heldur ætla þær að fara með tóman striga og snyrtivörur beinustu leið yfir á Hlemm þar sem þær ætla að biðja vegfarendur um að taka þátt í að skapa.
Tómur strigi mun ferðast víða áður en kvennafrídagurinn rennur upp. Þannig má fólk eiga von á því að strigi heimsæki stóra vinnustaði og menntastofnanir þar sem fólki gefst tækifæri til að leggja sitt af mörkun í listsköpuninni með snyrtivörunum sem söfnuðust. Hver sem er getur því teiknað með varalit eða litað duglega með naglalakki og þannig verið með.
Fjöldalistaverkin verða síðan frumsýnd á kvennafrídaginn í lok október, mögulega fyrir framan hundrað þúsund manns.
Þá og þannig mun þjóðin öll sannarlega njóta Litrófs íslenskra kvenna.
 Hugmyndafræðin að baki gjörningnum „Litróf íslenskra kvenna" er margþættur. Það eru skiptar skoðanir á notkun kvenna á snyrtivörum og farða. Sumir vilja meina að konur noti farða til að draga fram bestu þættina í útliti sínu og ýti einungis undir þá náttúrulegu fegurð sem þær fengu í vöggugjöf. Þannig bæti notkun farða og snyrtivara sjálfstraust kvenna. Aðrir eru á öndverðum meiði og halda því fram að notkun kvenna á farða sé afleiðing af hlutgervingu og kynvæðingu konunnar í karllægum heimi. Með öðrum orðum séu konur að gangast upp í ímynd karla af þeim sem „puntudúkkum".
Það gefur því augaleið að „Litróf íslenskra kvenna“ getur alið af sér athyglisverða og ögrandi umræðu um stöðu nútímakonunnar. Síðast en ekki síst skal tekið fram að undir hugtakið "íslenskar konur" falla allar konur sem búa og starfa í íslensku samfélagi, óháð uppruna.
|