Hugleiðingar konu v. 6.0
 
22. okt. 2005
Eftirfarandi hugleiðingu mína má finna á vef Ungra Vinstri Grænna.

Á föstudagskvöldið var ég við setningu landsfundar Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs. Þarna var margt um manninn og mikið af konum. Við setningarathöfnina tóku meðal annarra til máls tvær konur. Önnur mjög ung og hin mun eldri. Unga konan fjallaði af miklum myndarskap um verndum umhverfisins og tók þar á eftir fyrir helstu málefni flokksins, hvert af öðru. Þegar ræðu hennar lauk var tilkynnt að þessi unga stúlka væri aðeins 15 ára. Þvílíkur kraftur og skynsemi hjá svona ungri stúlku. Þvílíkur baráttuandi innan Ungliðahreyfingarinnar. Eldri konan tók við af henni og sýndi gráa hárið að hún var enginn nýgræðingur í bransanum. Hún var svo hyllt í lok ræðunnar þegar allir fundargestir stóðu upp fyrir henni. Þarna var kona með reynslu á ferð.

Ræða formanns flokksins, Steingríms J. Sigfússonar, var skörungleg að venju. Hann fjallaði jafnt um ?viðskiptahallaveislu? stjórnvalda og ?stóriðjubindindi? VG. Sérstaklega þótti mér mikið til þess koma þegar Steingrímur vatt máli sínu að því forgangsefni hægri manna að flytja valdið frá stjórnmálamönnum og til viðskiptalífsins. Hann benti réttilega á að valdið er bara alls ekki hjá stjórnmálamönnunum heldur hjá þjóðinni og þannig er verið að ræna þjóðina ákvörðunarrétti sínum með þessari markaðsvæðingu valdsins. Formaðurinn sýndi þarna og sannaði fyrir fundargestum að hann var verðugur þess að vera nýlega valinn besti ræðumaður Alþingis.

Ekki má svo gleyma því frábæra tónlistarfólki sem stytti okkur stundir með ljúfum tónum. Þarna voru á ferð Eldri félagar úr Karlakór Reykjavíkur, Léttsveit Reykjavíkur og Voces Thules sem fluttu miðaldatónlist með aðstoð söngradda sinna og miðaldahljóðfæra. Kvöldið var því sannkölluð veisla, bæði fyrir músíkalskt eyra og baráttuglatt hjarta. Þó veit ég að þetta var aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal um helgina. Áfram VG !
posted by ErlaHlyns @ 01:44  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER