1. jan. 2006 |
|
Fyrstu áramótin á Ægisíðunni. Það besta við að vera að fara í matarboð á efri hæðinni er að maður kemst upp með að leggja af stað í veisluna mínútu áður en hún hefst. Ég fékk að venju sér mat því ég er svo sér-stök. Núna reyndu þó allir að ræna matnum mínum enda kalkúnabringa sérlega ljúffeng. Það var eitthvað annað en á aðfangadag þegar ég fékk að að hafa hnetusteikina út af fyrir mig.
Mér voru sýndir loðskór sem yngsta barnið fékk í jólagjöf: "Þetta fékk hann frá afa sínum á Grænlandi". Ég: "Frábært!". Stolt móðir: "Þetta er ísbjörn". Ég, eftir að hafa snarlega kippt hendinni frá skónum: "Oooooojjjjjj". Erla Hlynsdóttir - með prófgráðu í Almennri kurteisi.
Frænka mín á unglingsaldri sem hefur nýlega horft mikið á Friends sagði að ég væri nú bara svona alveg eins og Pheobe. Ekki amalegt að líkjast klikkaðasta Vininum.
Annars var erfitt að eiga munnleg samskipti hluta kvölds vegna gífurlegs hávaða í flugeldum. Ég man bara ekki eftir viðlíka látum. Aldrei hef ég heldur séð jafn marga ganga hér eftir Ægisíðunni og það var bæði gaman og leiðinlegt að hafa brennuna næstum því í bakgarðinum. Sumir tóku sig svo til og voru með eigin flugeldasýningar. Björk, nágranni minn, var ein af þeim. Alltaf gaman að svona einstaklingsframtaki í umhverfis- og hljóðmengun. Annar nágranni minn stóð úti stóran hluta kvölds með hundinn sinn sem gelti, vældi og lagðist í götuna. Indæll nágranni. Góður við börn og dýr.
Ég eyddi svo nóttinni með félögum mínum Shrek og Carlsberg, ásamt þriðja sætasta kisa í heimi - El Gato con Botas
 |
posted by ErlaHlyns @ 18:56 |
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|