Hugleiðingar konu v. 6.0
 
30. ágú. 2006
Ísland í dag
Eitt sumarið passaði ég oft krúttlegan chihuaha hund. Þegar ég fór út að labba með hann áttu börn til að koma hlaupandi og biðja um að klappa voffanum. Í eitt skiptið slóst lítill strákur í för með okkur og fannst mikið til hundsins koma. Hann elti okkur hálfan göngutúrinn og þegar hann var kominn að útidyrunum hjá mér án þess að sýna á sér fararsnið benti ég honum á að það væri ekki sniðugt að fara heim til ókunnugra, jafnvel þó þeir séu með sætan hund. Ég er svolítið eins og litlu börnin.

Ég sit í strætóskýlinu þegar ungur maður vindur sér að mér og biður um að fá að hringja. Ég leyfi honum það og fer að klappa hundinum hans. Í staðinn fyrir símtalið býður hann mér far með sér og vini sínum sem sé á leiðinni. Ég þigg það auðvitað enda á maðurinn hund. Af óræðu samtali mannsins og bílstjórans tel ég mig ráða að þeir ætli að eiga minniháttar fíkniefnaviðskipti nokkru síðar. Þegar þeir síðan nefna hnúajárn sannfærist ég. Þó læt ég engan bilbug á mér finna og hef orð á því hvað boxer-tíkin við hlið mér sé falleg. ,,Þú ert nú ekkert ómyndarleg sjálf", fæ ég að heyra. Mér reiknast til að þetta sé hrós vikunnar, að ég sé svo myndarleg að ég falli ekki í skuggann af slefandi hundi með öndunartruflanir. Þessir fíkniefnaneytendur og ofbeldismenn voru sumsé hinir indælustu. Í kveðjuskyni buðu þeir mér sopa af Captain Morgan flöskunni sem var í hanskahólfinu og þakkir fyrir símtalið voru ítrekaðar. Hver sagði svo að það væri ekki spennandi að stefna á strætóferð á mánudagskvöldi?
posted by ErlaHlyns @ 12:47  
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER