2. okt. 2010 |
Barnabílstólar hundraðogN1 |
Mig bráðvantar barnabílstól fyrir stelpuna mína. Stúlkan sú verður brátt níu kíló og ég vil að hún getið notað stóllinn bakvísandi sem allra lengst.
„Umferðarstofnanir á öllum Norðurlöndunum mæla með því að börn séu látin snúa baki í akstursstefnu eins lengi og hægt er, helst þar til þau eru 3-4-ára.“
Ég lagði leið mína í verslun N1 því móðir mín kær fær þar afslátt af barnabílstólum. Í versluninni hitti ég fyrir afgreiðslumanninn Örnólf, sérfræðing N1 í barnabílstólum, og bar honum erindi mitt. Hann sagðist hafa til sölu tvær gerðir af stólum sem kæmu til greina; Britax First Class og Britax Secura.
Ég sagði honum að ég hefði lesið á netinu að bara væri hægt að nota First Class-stólinn bakvísandi þar til börnin væru orðn 13 kíló, að þá þyrfti að snúa þeim fram. Ég sagði honum líka að ég hefði lesið á vef Umferðarstofu að þar væri mælt með því að börn ættu að vera í bakvísandi stólum þar til þau væru orðin þriggja ára.
„Barn í bakvísandi barnabílstól er mun líklegra til að sleppa óskaddað verði slys heldur en barn sem situr í barnabílstól sem snýr fram.“
Örnólfur hallaði sér að mér og lækkaði röddina eilítið þegar hann ákvað að segja mér eitt; það væri nefnilega ekki alveg að marka það sem Umferðarstofa gæfi út. Hann sagði mér kumpánalega að það væri í góðu lagi að láta börnin snúa fram miklu fyrr og sýndi mér hvernig væri hægt að stilla hallann á Britax First Class-stólnum þannig að börnin yrðu ekki fyrir jafn miklum hálsmeiðslum ef þau lentu í árekstri.
Örnólfur trúði mér líka fyrir því að „íslenskum börnum leiddist svo mikið að snúa aftur því þá sæu þau verr út um gluggann.“ Ekki nóg með það heldur bætti hann brosandi við að „íslenskar mæður væru svo eftirgefanlegar“ að þær settu börnin sín miklu fyrr í framvísandi stóla en Umferðarstofa mælir með því þær vilja ekki að börnunum leiðist í bakvísandi stólum.
Á þessum tímapunkti var ég farin að hnykla býrnar allsvakalega en í stað þess að ganga út ákvað ég að spyrja Örnólf aðeins fleiri spurninga. Ég hafði nefnilega líka flett því upp á netinu að Britax er hætt að framleiða Secura-stólana, hina týpuna sem hann sagðist vera með til sölu fyrir börn af sömu stærðargráðu og dóttir mín.
Örnólfur, sérfræðingur N1 í barnabílstólum, sagðist þá ekki hafa hugmynd um að Secura væru hættir í framleiðslu. Hann fullyrti að nýjasta sendingin hefði komið fyrir örfáum vikum og þetta væru því sannarlega nýir stólar.
Þegar ég bað um að fá að sjá framleiðsludagsetninguna á Secura-stólunum sagði hann að það væri engin slík dagsetning á þeim. Ég sagðist nú telja að framleiðendum væri skylt að merkja stólana þannig að kaupendur vissu hvað þeir væru gamlir. Ég hefði nefnilega líka lesið á vef Umferðarstofu að ekki sé ráðlegt að nota bílstóla sem eru eldri en 6 til 8 ára. Örnólfur sagði þá litlu skipta hversu gamlir stólarnir væru, mestu skipti hversu mikið þeir hefðu verð í frosti. Framleiðsludagsetningin væri því aukaatriði.
Eftir frekari rökræður sagði hann mér loks að þau hjá N1 hafi lengi miðað framleiðsludagsetningu Britax-stólanna við ákveðinn stimpil í plasti stólsins. Fyrir einu og hálfu ári hafi þau síðan komist að því að það var ekkert að marka þann stimpil. Núna þurfi því að senda fyrirspurn til Bretlands til að fá uppgefna framleiðsludagsetningu hvers og eins stóls. Ég benti Örnólfi þá á ákveðinn stól og sagðist vilja fá upplýsingar um hvenær hann væri framleiddur. Hann sagði það minnsta málið og ráðlagði mér á að hringja í Dóru í innkaupadeildinni til að fá upplýsingarnar.
Við nánari skoðun sá ég að áklæðið á stólnum var skítugt. Fyrst mótmælti Örnólfur því, sagði stólinn alls ekkert skítugan en viðurkenndi það loks og tók þá fram að þetta væri auðvitað sýningareintak.
Ég sagðist þá vilja fá uppgefna framleiðsludagsetningu á öðrum stól, samskonar stól með eins áklæði. Svona fyrst að það þarf að senda fyrirspurn til Bretlands vegna nákvæmlega þess stóls sem ég hef áhuga á. Ég vildi líka fá að vita nákvæmlega hvaða upplýsingar um stólinn eru sendar út til að vita hvenær nákvæmlega þessi stóll væri framleiddur. Örnólfur benti mér þá á strikamerki sem var límt á plastið undir sessunni. Ég bað um að fá að taka mynd af strikamerkinu á stólnum. Örnólfur samþykkti það. Hann spurði mig samt ekkert um nafn, sem ég myndi þá gefa Dóru upp þegar ég hringdi, eða punktaði neitt niður um hvaða stól ég valdi. Líklega ætlaði hann bara að muna það.
Ó, ég hlakka svo til að heyra í henni Dóru. Örnólfur sagðist samt ekki vita hvað það tæki hana langan tíma að fá upplýsingarnar í hendurnar. Það kemur bara í ljós.
„Barn undir 18 kg er mun betur varið í bakvísandi barnabílstól en framvísandi stól ef bíllinn lendir í árekstri. Höfuð barns á þessum aldri er hlutfallslega stærra og þyngra en höfuð eldra barns og hálsliðir ekki fullþroskaðir. Snúi barnið fram er líklegra að það hljóti alvarlega áverka á mænu, hálsliðum og heila í árekstri.“
Eins merkilegt og þetta allt nú er þá hef ég enn ekki sagt frá því merkilegasta. Það er nefnilega þannig að eftir að ég lagðist í smá rannsóknarvinnu fann ég fjöldan allan af reynslusögum á netinu frá síðustu árum þar sem fólk segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við Örnólf nokkurn hjá N1. Já, hann hefur víst verið að segja fólki að börnum leiðist í bakvísandi stólum og að það sé ekkert að marka ráðleggingar Umferðarstofu.
Sumir höfðu kvartað til yfirmanna hans og sumir höfðu meira að segja fengið til baka bréf frá N1 þar sem þeim var tilkynnt að það yrði nú aldeilis tekið á því ef „starfsfólk“ gefur fólki rangar upplýsingar. Það hefur greinilega svínvirkað. Ég fann líka nokkrar sögur frá fólki sem finnst Örnólfur rosa kammó.
„Á hverju ári slasast yfir 20 börn, 6 ára og yngri, sem eru farþegar í bílum. Með góðum öryggisbúnaði hefði verið hægt að koma í veg fyrir mörg þessara slysa og draga verulega úr áverkum í öðrum.“
Hér eru síðan nokkrir tenglar á vef Umferðarstofu. Ef einhver tekur þá mark á henni.
Börn í bílum
Of margir nota ekki réttan búnað fyrir börn í bílum - niðurstöður könnunar
Algengar spurningar frá foreldrum - og svör |
posted by ErlaHlyns @ 08:02 |
|
3 Comments: |
-
Ef Umferðarstofur þessa heims fengju að ráða, væru öll börn væntanlega í bakvísandi bílstólum fram að fermingu. Og reyndar væri skynsamlegast að allir sem eru í bílum vísi aftur á bak... nema kannski bílstjórinn af praktískum ástæðum.
EN... sem tveggja barna faðir þá myndi ég vilja sjá statistík sem tekur fleiri þætti inn í dæmið. Barn sem er bakvísandi er pirraðra en barn sem er framvísandi. Foreldri sem er eitt í bíl með pirrað barn verður stressaðra en ella og þar með verri og hættulegri ökumaður. Slíkt foreldri reynir líka að reygja sig og svegja til að róa grenjandi krakka og verður stórhættulegt í umferðinni fyrir vikið.
Bakvísandi stóll er ávísun á aukið öryggi (einkum ef við lítum framhjá stressfaktornum fyrir ökumanninn) en hann felur líka í sér skert lífsgæði barns og foreldris). - Örnólfur er ekki að ljúga neinu með það að börnum leiðist í bakvísandi stólum, þau sjá minna af veröldinni í kringum sig og missa af mörgu úr umhverfi sínu. Í einkabílssamfélagi eins og okkar, eru bíltúrarnir í snattinu fram og til baka einmitt mikilvægar kennslustundir um hvað sé úti í hinum stóra heimi.
Þegar við umgöngumst tækni, þá erum við í sífellu að velja á milli öryggis og lífsgæða (þegar nánar er að gáð gildir þetta um nánast hvert einasta tæknikerfi hins daglega lífs). Ef við myndum fylgja hverjum einustu varúðarráðstöfunum út í ystu æsar myndum við varla gera mikið annað og hefðum takmarkað not af tækninni. Á sama hátt eru vonandi fáir svo ábyrgðarlausir að hundsa allar öryggisleiðbeiningar (þeir yrðu svo sem varla langlífir heldur). Niðurstaðan hlýtur alltaf að vera einhver málamiðlun milli beggja kosta.
-
Ég held alls ekki að Örnólfur sé að ljúga því að flest börn vilji frekar snúa fram en aftur. Ég held líka að flest börn vilji frekar súkkulaði en gulrætur, fái þau að velja. Við reynum nú samt að gefa þeim gulrætur, og jafnvel grænkál.
Örnólfur talaði reyndar ekki um flest börn heldur „íslensk“ börn, og „íslenskar“ mæður. Eins og hér sé eitthvað í vatninu sem gerir það að verkum að mæður verða eftirlátssamar og börn vilja snúa fram.
Þetta er gott sölutrix því án þess að hann viti neitt um mig þá höfðar hann til mín sem Íslendings, en ekki íbúa í því landi þar sem stóllinn er framleiddur. Hann reynir einnig að höfða til mín sem móður og myndi mögulega tala um feður eða foreldra ef það ætti við mögulega kaupendur.
En auðvitað er ekki hægt að taka öllum öryggisráðleggingum bókstaflega og miða þarf við þarfir hvers barns. Nú þykir mörgum börnum bara fínt að snúa aftur því þau þekkja ekki annað en önnur eru mjög erfið og foreldrar fara þá leið að snúa þeim fram fyrr en ráðlagt er til að þau séu rólegri. Það er þá þeirra upplýsta val.
Mér finnst afar ótraustvekjandi að maður sem selur öryggisvörur geri út á að segja öryggisviðmið helbera vitleysu.
Fyrir hvern starfsmann skiptir auðvitað mestu að væntanlegur viðskiptavinur velji „þína“ vöru og líði vel eftir að hann ákveður það.
Sölumaður þarf að selja til að halda vinnunni, og sölumanninn (nú er ég ekki að tala um Örnólf sérstaklega) skiptir engu að foreldrar slái mögulega af öryggiskröfum sínum til að hann fái launin sín.
Það sem mér finnst athugavert er að þessi sölumaður er beinlínis að hvetja fólk eins og mig, sem er ákveðin í að kaupa stól sem er bakvísandi að 18 kílóum eða svo, til að hætta við það og kaupa frekar stól sem þarf að snúa fram við 13 kíló. Hefði ég ekki verið búin að kynna mér hlutina hefði ég vitanlega haldið að hann hefði lög að mæla.
Ég kýs þó að taka mark á Umferðarstofu og vel að stefna á að hafa barnið mitt í bakvísandi stól eins lengi og það gengur.
Ef það gengur ekki upp get ég farið og beðið um stól sem er framvísandi því það sé einmitt það sem henti mínu barni.
-
Það þarf ekki að fara lengra en til nágranna okkar í Svíþjóð til að sjá tölur um áhrif þess að börn séu lengur í bakvísandi stólum. Þar er slysatíðni á börnum mun lægri en annars staðar og talað um það megi rekja til þess að um 75% barna eru í bakvísandi stólum upp í 4 ára aldur þar.
Ég get ekki séð að það sé mikill munur á íslenskum og sænskum börnum þegar kemur að pirring og svona og ég held að foreldrar séu ekkert síður stressaðir þarna. Get heldur ekki séð að lífsgæði sænskra barna séu eitthvað skertari þar sem þau sitja í bakvísandi stólum. Þau sjá kannski ekki foreldra sína, en sjá samt sem áður út bæði hliðar og afturrúðurnar á bílnum og sjá því heiminn, bara frá öðru sjónarhorni.
Hérna eru linkar á áhugaverðar síður um þetta:
http://www.bmj.com/content/338/bmj.b1994.full
http://carseatblog.com/5168/why-rear-facing-is-better-your-rf-link-guide/
http://www.ntf.se/konsument/barnibil/default31003.asp
|
|
<< Forsíða |
|
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|
Ef Umferðarstofur þessa heims fengju að ráða, væru öll börn væntanlega í bakvísandi bílstólum fram að fermingu. Og reyndar væri skynsamlegast að allir sem eru í bílum vísi aftur á bak... nema kannski bílstjórinn af praktískum ástæðum.
EN... sem tveggja barna faðir þá myndi ég vilja sjá statistík sem tekur fleiri þætti inn í dæmið. Barn sem er bakvísandi er pirraðra en barn sem er framvísandi. Foreldri sem er eitt í bíl með pirrað barn verður stressaðra en ella og þar með verri og hættulegri ökumaður. Slíkt foreldri reynir líka að reygja sig og svegja til að róa grenjandi krakka og verður stórhættulegt í umferðinni fyrir vikið.
Bakvísandi stóll er ávísun á aukið öryggi (einkum ef við lítum framhjá stressfaktornum fyrir ökumanninn) en hann felur líka í sér skert lífsgæði barns og foreldris). - Örnólfur er ekki að ljúga neinu með það að börnum leiðist í bakvísandi stólum, þau sjá minna af veröldinni í kringum sig og missa af mörgu úr umhverfi sínu. Í einkabílssamfélagi eins og okkar, eru bíltúrarnir í snattinu fram og til baka einmitt mikilvægar kennslustundir um hvað sé úti í hinum stóra heimi.
Þegar við umgöngumst tækni, þá erum við í sífellu að velja á milli öryggis og lífsgæða (þegar nánar er að gáð gildir þetta um nánast hvert einasta tæknikerfi hins daglega lífs). Ef við myndum fylgja hverjum einustu varúðarráðstöfunum út í ystu æsar myndum við varla gera mikið annað og hefðum takmarkað not af tækninni. Á sama hátt eru vonandi fáir svo ábyrgðarlausir að hundsa allar öryggisleiðbeiningar (þeir yrðu svo sem varla langlífir heldur). Niðurstaðan hlýtur alltaf að vera einhver málamiðlun milli beggja kosta.