Hugleiðingar konu v. 6.0
 
25. maí 2011
Svona á að afhýða banana
Líklega eru ekki nema tvö eða þrjú ár síðan ég lærði að afhýða banana eins og „á“ að gera það, það er: Eins og apar gera það.

posted by ErlaHlyns @ 22:25   1 orð í eyra
25. apr. 2011
Krílagott: Foreldað rauðrófubuff


Það er vissulega hægt að fá fullt af tilbúnum mat sem er fullur af aukaefnum en með takmarkað næringargildi. Ef þú bara leitar á réttu stöðunum geturðu hins vegar fundið bæði hollan og góðan mat sem börnunum finnst gott að borða, og þú getur fengið þér líka.

Buffin frá Móður jörð eru dæmi um mat sem er sérlega heilnæmur og aldeilis hægt að bjóða upp á þau þegar ekki er mikill tími til að elda. Allt hráefnið er lífrænt ræktað.

Rauðrófubuffin hafa notið mikilla vinsælda hjá dóttur minni, en buffin bara hita ég á pönnu og stappa svo rétt aðeins með olíu. Ég borða þau líka, með grænmeti.

Byrjað var að selja buffin í nýjum pakkningum í ársbyrjun. Auk rauðrófubuffsins er hægt að fá byggbuff og baunabuff.

Efnisorð: , ,

posted by ErlaHlyns @ 18:02   0 orð í eyra
11. apr. 2011
Bollakökunámskeið hjá Rikku
Þetta er útkoman eftir bollakökunámskeið kvöldsins hjá Friðriku Hjördísi Geirsdóttur, eða Rikku eins og hún er yfirleitt kölluð.

Að sjálfsögðu ætlaði ég að taka með mér myndavél á námskeiðið en í öllum flýtinum steingleymdi ég henni. En þetta eru þær sex kökur sem ég tók með mér heim.

Ég hef aldrei í lífi minu skreytt köku, ef frá eru taldar piparkökurnar sem ég skreytti sem barn, og ætlaði nú aldeilis að læra það á þessu námskeiði. Þegar Rikka byrjaði að sýna okkur hvernig væri best að setja kremið á, eins og ekkert væri sjálfsagðara, byrjaði að myndast kvíðahnútur í maganum á mér.
„Ég á algjörlega eftir að klúðra þessu!" hugsaði ég.

Ekki batnaði það þegar hún skar út þessi líka fíngerðu og fögru blóm úr sykurmassanum.
„Mín blóm eiga eftir að verða ömurleg.“

Mér er vissulega margt til lista lagt. En ég er furðu illa að mér í öllu dúlleríi.

Af námskeiðinu gat ég víst ekkert flúið og byrjaði að skreyta. Merkilegt nokk þá gat ég þetta, alveg eins og allir hinir.

Námskeiðin eru haldin í Hagkaup í Smáralind. Rikka var búin að baka kökurnar, en lét okkur þó hafa uppskrift að bæði vanillu-bollakökum og súkkulaði-bollakökum. Við sáum síðan um að skreyta kökurnar.

Heldur fleiri uppskriftir, og hugmyndir að skreytingum, verða í bollakökubókinni hennar sem er væntanleg í næsta mánuði. Mér segir svo hugur að hún eigi eftir að seljast eins og heitar lummur. Eða eins og ... bollakökur.

Efnisorð:

posted by ErlaHlyns @ 21:30   2 orð í eyra
27. mar. 2011
Líf mitt í hnotskurn: Pressa


„Ég stóð mig að því að vera farinn aftur að kalla þig Erlu!“ sagði samstarfsmaður minn, greinilega hneykslaður á sjálfum sér. 

Ég áttaði mig samt ekki alveg á ástæðunni því ég heiti jú Erla. „Hvað hefðir þú átt að kalla mig annað?“

Hann var fljótur til svars: „Nú auðvitað Láru!“

Aðalpersónan í Pressu, hún Lára, á nefnilega heldur margt sameiginlegt með mér. Allavega í fyrsta þættinum sem sýndur var í síðustu viku. 

Lára var líka aðalpersóna síðustu seríu og starfar á Póstinum, en fyrirmynd blaðsins er DV, minn gamli vinnustaður.

Í fyrsta þættinum nú var Lára síðan í fæðingarorlofi en þátturinn byrjaði á því að hún var dæmd til að greiða 800 þúsund krónur vegna meiðyrða sem birtust í Póstinum. 

Skemmtilegt nokk, þá var ég líka í fæðingarorlofi þegar ég var síðast dæmd til fégreiðslu vegna meiðyrða. Reyndar var barnið mitt ekki fætt. Dómurinn féll 21. desember en barnið fæddist 2. janúar. Aðalmeðferðina sat ég komin sjö mánuði á leið. Lára náði ekki að toppa það. 

Lára verður síðan heldur ósátt þegar ritstjóri blaðsins hennar neitar að láta blaðið taka nokkurn þátt í að borga krónurnar 800 þúsund.  Skiljanlega. 

Ég hef nú gengið á millli Birtíngs og DV til að reyna að fá einhvern til að borga þær ríflega 800 þúsund sem mér er nú gert að greiða.  Dóminn sem það mál snýst um má lesa með því að smella hér. 

Forsvarsmenn Birtíngs vísa á DV, og segja að þó blaðið hafi verð selt út úr útgáfufélaginu þá séu það sömu menn sem stýra því nú og þegar ég skrifaði í blaðið þá grein sem ég var dæmd fyrir.
Forsvarsmenn DV vísa hins vegar á Birting og segja að venjan sé sú að útgáfa blaðs sjái um að greiða sektir starfsmanna vegna greina sem þeir skrifa í blaðið.

Hjá Birtíngi hefur því raunar verið lýst yfir að þar sé vilji til að greiða helminginn á móti DV, en DVmenn taka það ekki í mál.

Ein af ástæðum þess að ég sagði upp hjá DV á sínum tíma var einmitt andstaða innan minnihluta stjórnar DV til að greiða aðra sekt, sem ég þurfti að greiða vegna starfa minna hjá blaðinu. Það snerist um 122 þúsund krónur. Þær voru þó greiddar á endanum – 20 mínútum áður en fjárnámsbeiðnin var tekin fyrir hjá Sýslumanni, fallegan síðsumarmorgunn á síðasta ári. Birtíngur hafði þá greitt hinn helminginn, sömu upphæð, daginn áður.

Þetta er því aðeins flóknara hjá mér en Láru. Og nýja aðfararbeiðnin mín bíður afgreiðslu hjá Sýslumanninum í Reykjavík. 

Líkindi mín og Láru hafa verið aðal umræðuefnið í hádegishléinu, við kaffivélina og á Facebook. 

Einn samstarfsmaðurinn, sem ekki þekkti sögu mína, sagðist hafa hugsað þegar hann sá Pressu: „Svona gæti aldrei gerst á Íslandi.“

Ööö, jú!

posted by ErlaHlyns @ 16:26   5 orð í eyra
21. mar. 2011
Gott: Engiferseyði með sítrónu og kanil

Engiferæðið er löngu farið úr böndunum. En þar sem ég byrjaði að drekka engiferseyði þegar ég var ólétt, með magnþrungnum afleiðingum, ákvað ég að halda mig barasta við það.

Flaska af engiferseyði í næsta stórmarkaði kostar um hundrað sinnum meira en það kostar að búa það til sjálf/ur.

Svona er það gert:

Skammturinn sem ég sýð í um tveimur lítrum af vatni. Kanill ilmar vel, bragðast vel og er sagður jafna blóðsykurinn. Hann hef ég alltaf með

Einu sinni tók ég hýðið alltaf af engiferrótinni. Síðan ákvað ég að það væri bara of mikið vesen, og ég er ekki mikið fyrir óþarfa vesen.  Núna sker ég rótina bara í þunnar sneiðar.

Engiferrót og kanilstangir, og blessað vatnið.

Sítrónurnar geymi ég við stofuhita. Síðan rúlla ég þeim með höndunum á skurðarbrettinu áður en ég sker þær. Þannig næst sem mestur safi úr þeim þegar ég kreisti þær. En ég sýð þær yfirleitt líka með, bara til að fá meira bragð. 
Seyðið sýð ég við lítinn hita í um klukkustund. Þetta geri ég alltaf á kvöldin. Síðan læt ég seyðið standa yfir nóttina, með öllu í. 
Um morguninn helli ég síðan seyðinu í könnu, og sigta. 
Kannan fer beint í ísskápinn. 
Seyðið er auðvitað hægt að hita upp ef óskað er.

Þrútið andlit, baugar undir augum. Allt þetta hverfur, í alvöru, ef þú bara drekkur nákvæmlega þetta.

Ef þetta er ekki til í ísskápnum mínu, þá er sannarlega eitthvað að.
posted by ErlaHlyns @ 22:51   5 orð í eyra
2. mar. 2011
Gott: Orkustykki
 Orkustykki. Ég held að það sé besta heitið yfir þetta.

Ég er ein af þeim sem borða aldrei morgunmat.
Leiðrétting: Ég er ein af þeim sem borðaði aldrei morgunmat.
Nú borða ég orkustykki alla morgna. Heimalagað.


 
1/4 bolli niðurskornar aprikósur
1/4 bolli niðurskornar döðlur
!/4 bolli þurrkuð trönuber

 
1/2 bolli tröllahafrar
1/2 bolli kókosflögur
1/2 bolli sólblómafræ
1/4 bolli hveitikím
1/4 bolli sesamfræ1/4 bolli hunang
1/4 bolli sýróp
2  msk smjör/kókosolía

Bræðið saman hunang, sýróp og smjör/olíu.
Bætið við apríkósunum, döðlunum og trönuberjunum.

 Takið blönduna af hitanum og blandið þurrefnunum vel saman við.

Leggið smjörpappír í mót. Ég nota hér grunnt mót sem er um 30 x 40 cm. 
Setjið blönduna á pappírinn og breiðið úr henni.

 Sléttið vel úr blöndunni og þéttið í alla enda. Hér erum við í raun að móta orkustykkin. 
Ójöfn blanda = ójöfn orkustykki.

 Geymið í kæli í hálfan sólarhring, eða lengur, þannig að blandan harðni.

 Skerið orkustykkin í æskilega stærð. Mér finnst þægilegast að nota pizzaskera.

 Lokaútkoman. Eitt stykki morgunmatur, eða vinnusnarl.

Ég klippi niður smjörpappír og pakka orkustykkjunum inn. Best finnst mér að geyma þau í kæli, jafnvel í frysti, því þau verða heldur lin við stofuhita.
Oft gríp ég eitt úr frystinum áður en ég legg af stað í vinnuna og borða það síðan þegar ég er mætt.
Fljótlegt. Einfalt. Gott.

Efnisorð:

posted by ErlaHlyns @ 21:08   4 orð í eyra
20. feb. 2011
Vel sveitt konudagskaka
Kaka ársins 2011 eins og hún er auglýst
Kaka ársins eins og hún lítur út í alvörunni

posted by ErlaHlyns @ 14:38   3 orð í eyra
14. feb. 2011
Krílagott: Gulrótamauk með stappaðri ýsu


Vegna fjölda áskorana kemur hér annað myndablogg með krílafæði. Nú eru það gulrætur og ýsa sem eru á boðstólnum.

Lífrænt ræktaðar íslenskar gulrætur eru auðvitað bestar. Þær skola ég bara og bursta áður en ég sker þær.

Þetta gerist ekki mikið einfaldara

Gulræturnar sýð ég í víðum potti og læt vatnið ekki ná alveg yfir þær. Ég helli aldrei vatninu af heldur nota eins lítið og ég kemst af með. Þannig þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að hella niður næringarefnum.

Nauðsynlegt er að hafa þétt lok á pottinum og láta gulræturnar eldast í gufunni. Þetta tekur um 10 mínútur, en fer þó eftir hversu stórir bitarnir eru

Þegar gulræturnar eru enn heitar mer ég þær með kartöflupressu.
Þegar stelpan mín var minni setti ég soðnar gulræturnar og vatnið í matvinnsluvél, en núna borðar hún grófari mat og þá hentar pressan vel


Alltaf fer kaldpressuð olía í grænmetið eftir að það er eldað. Í þetta skiptið nota ég blandaða „barna“olíu frá Holle. Hún inniheldur 50% repjuolíu, 45% sólblómaolíu og 5% hempolíu. 


Gulrótamaukið er þá tilbúið til geymslu og hægt að setja þessa blöndu saman við kjöt, fisk, baunir eða annað grænmeti. Alls ekki setja svona mikið í krukku sem fer í frysti því innihaldið þenst út við að frosna. Þetta er fínt bara svona í ísskápnum fram á næsta dag.

Við ætlum hins vegar að bjóða upp á ýsu með gulrótunum. Ég reikna með að allir kunni að sjóða ýsu. Hér er hún komin á disk með smjöri!

Ýsuna stappa ég með smjörinu, bara svona eins og þegar við vorum lítil.
Eftir að ég fór að gefa dóttur minni stappaða ýsu með smjöri hef ég sjálf orðið alveg óð í þetta aftur. Ég sem hafði ekki borðað stappaða ýsu með smjöri og kartöflum í mörg ár.
Hálfur skammtur gulrætur, hálfur skammtur ýsa. Börnin blessuð hafa síðan bara ógurlega gott af þessari fitu. Sérstaklega þó hollu fitunni en það er allt í lagi að hafa hina stundum með.

Tilbúið!

Efnisorð: , ,

posted by ErlaHlyns @ 21:55   2 orð í eyra
31. jan. 2011
Krílagott: Grænmetiskarrí með linsubaunum

Dóttir mín borðaði krukkumat hluta úr viku á fyrsta æviárinu. Þá vorum við í sumarbústað og ég bara nennti ekki að búa sjálf til barnamauk í öll mál. Þess utan hefur hún þó fengið heimagerðan mat. Það er nefnilega miklu auðveldara en margir telja.

Þess vegna kemur hér sýnishorn af því þegar ég bý til grænmetisrétt handa henni með linsubaunum.

Tveir litlir hausar, blómkál og brokkólí

Skornir smátt eins og vera ber

Setjið grænmetið í pott og bætið við vatni þannig að grænmetið rétt fljóti upp úr. Passið að setja ekki of mikið vatn því við hellum engu niður síðar. Barnamat er óþarfi að salta en ég nota gjarnan hin ýmsu krydd. Dóttir mín kann vel að meta karrí.

Gular linsubaunir þurfa aðeins 5 mínútna suðutíma. Magnið af þeim er miðað við að þær drekki í sig allt það vatn sem grænmetið þarf ekki. 
 Þétt lok er sett á pottinn og þetta er látið malla á lágum hita í rúmar 5 mínútur. Smakkið baunirnar eftir þann tíma og ef þær eru of þurrar er minnsta málið að bæta við meira vatni, ef þarf, og láta malla aðeins lengur.

Þegar búið er að elda réttinn er olíu bætt út í. Mikilvægt er að litlu krílin fái nauðsynlegar fitusýrur.  Kaldpressuð hörfræolía er mjög góð. Setjið um 2 msk af henni í þennan skammt. Olían er sett í eftir eldun til að hún haldi eiginleikum sínum.

Þegar olían er komin saman við er ekkert eftir annað en að mauka. Stelpan mín er reyndar orðin það stór að ég stappa það sem ég get. Blómkál og brokkólí er þó heldur auðveldara að mauka.

 
Úr þessu urðu þrír skammtar. Ef krukkurnar eiga að fara í frysti má ekki fylla þær alveg því gera þarf ráð fyrir að rúmmál matarins aukist lítið eitt við að frosna ef hann inniheldur mikið vatn, líkt og svona mauk.

Ógurlega einfalt, fljótlegt og hollt.

Efnisorð: , ,

posted by ErlaHlyns @ 20:45   6 orð í eyra
29. jan. 2011
Versta lesljós í heimi
Já. Versta lesljós í heimi. Það ætla ég að kalla lesljósið sem ég fékk í flugvél Icelandair.

Einhvern veginn hefur sú hugmynd fest rótum í kollinum á sumum (mér) að það sem selt er í flugvélunum uppfylli einhverjar ákveðnar gæðakröfur. Líklega eru þetta ranghugmyndir sem orðið hafa til því í flugvélum eru seld dýr ílvötn og rándýr krem.

Eftir tveggja ára misheppnaðar tilraunir til að lesa með lesljósinu mínu blessuðu ákvað ég loks að kaupa nýtt lesljós í Eymundsson.

Premier Collect ljós úr Saga Shop. 1300 krónur

The Really TINY book light úr Eymundsson.
Fullt verð um 1900 krónur. Nú á afslætti: um 1300 krónur


Það er þá óskandi að ég geti nú lokið við Vernon G. Little og kannski byrjað á jólabókunum
posted by ErlaHlyns @ 19:55   3 orð í eyra
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER