Hugleiðingar konu v. 6.0
 
27. mar. 2011
Líf mitt í hnotskurn: Pressa


„Ég stóð mig að því að vera farinn aftur að kalla þig Erlu!“ sagði samstarfsmaður minn, greinilega hneykslaður á sjálfum sér. 

Ég áttaði mig samt ekki alveg á ástæðunni því ég heiti jú Erla. „Hvað hefðir þú átt að kalla mig annað?“

Hann var fljótur til svars: „Nú auðvitað Láru!“

Aðalpersónan í Pressu, hún Lára, á nefnilega heldur margt sameiginlegt með mér. Allavega í fyrsta þættinum sem sýndur var í síðustu viku. 

Lára var líka aðalpersóna síðustu seríu og starfar á Póstinum, en fyrirmynd blaðsins er DV, minn gamli vinnustaður.

Í fyrsta þættinum nú var Lára síðan í fæðingarorlofi en þátturinn byrjaði á því að hún var dæmd til að greiða 800 þúsund krónur vegna meiðyrða sem birtust í Póstinum. 

Skemmtilegt nokk, þá var ég líka í fæðingarorlofi þegar ég var síðast dæmd til fégreiðslu vegna meiðyrða. Reyndar var barnið mitt ekki fætt. Dómurinn féll 21. desember en barnið fæddist 2. janúar. Aðalmeðferðina sat ég komin sjö mánuði á leið. Lára náði ekki að toppa það. 

Lára verður síðan heldur ósátt þegar ritstjóri blaðsins hennar neitar að láta blaðið taka nokkurn þátt í að borga krónurnar 800 þúsund.  Skiljanlega. 

Ég hef nú gengið á millli Birtíngs og DV til að reyna að fá einhvern til að borga þær ríflega 800 þúsund sem mér er nú gert að greiða.  Dóminn sem það mál snýst um má lesa með því að smella hér. 

Forsvarsmenn Birtíngs vísa á DV, og segja að þó blaðið hafi verð selt út úr útgáfufélaginu þá séu það sömu menn sem stýra því nú og þegar ég skrifaði í blaðið þá grein sem ég var dæmd fyrir.
Forsvarsmenn DV vísa hins vegar á Birting og segja að venjan sé sú að útgáfa blaðs sjái um að greiða sektir starfsmanna vegna greina sem þeir skrifa í blaðið.

Hjá Birtíngi hefur því raunar verið lýst yfir að þar sé vilji til að greiða helminginn á móti DV, en DVmenn taka það ekki í mál.

Ein af ástæðum þess að ég sagði upp hjá DV á sínum tíma var einmitt andstaða innan minnihluta stjórnar DV til að greiða aðra sekt, sem ég þurfti að greiða vegna starfa minna hjá blaðinu. Það snerist um 122 þúsund krónur. Þær voru þó greiddar á endanum – 20 mínútum áður en fjárnámsbeiðnin var tekin fyrir hjá Sýslumanni, fallegan síðsumarmorgunn á síðasta ári. Birtíngur hafði þá greitt hinn helminginn, sömu upphæð, daginn áður.

Þetta er því aðeins flóknara hjá mér en Láru. Og nýja aðfararbeiðnin mín bíður afgreiðslu hjá Sýslumanninum í Reykjavík. 

Líkindi mín og Láru hafa verið aðal umræðuefnið í hádegishléinu, við kaffivélina og á Facebook. 

Einn samstarfsmaðurinn, sem ekki þekkti sögu mína, sagðist hafa hugsað þegar hann sá Pressu: „Svona gæti aldrei gerst á Íslandi.“

Ööö, jú!

posted by ErlaHlyns @ 16:26  
5 Comments:
  • At 27/3/11 21:30, Blogger Unknown said…

    Hver er þessi Viðar Már eiginlega?

     
  • At 27/3/11 22:15, Blogger ErlaHlyns said…

    Hann er líklega betur þekktur sem Viddi á Strawberries, og rekur strípiklúbbinn við Lækjargötu

     
  • At 27/3/11 22:15, Blogger ErlaHlyns said…

    Ef þú smellir á tengilinn og lest dóminn geturðu fræðst meira um hann.

     
  • At 28/3/11 09:31, Anonymous Heiða B Heiðars said…

    Mér finnst frekar augljóst að fyrirtækið sem þú vannst hjá á þessum tíma eigi að sjá um þetta fyrir Erla.

     
  • At 30/3/11 15:11, Anonymous Nafnlaus said…

    Sammála Heiðu, það hlýtur að verða raunin. Burtséð frá því hvað þetta er fáránlegur dómur. Mundu nú að láta vita út um allt ef svo verður ekki. Kristín í París.

     
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER