23. feb. 2006 |
Fishy fish |
Þar sem ég skrifaði um mat í síðustu færslu og um þýsku þar á undan er við hæfi að nú ræði ég aðeins um mat í Þýskalandi.
Þegar ég er erlendis borða ég helst hvorki kjöt né fisk. Fyrir nokkrum árum sótti ég um sumarstarf í Þýskalandi. Í laun fékk ég meðal annars fæði og húsnæði. Því tók ég skýrt fram við vinnuveitendur mína áður en ég fór að ég borðaði ekkert kjöt. Reyndar borða ég íslenskan kjúkling með bestu lyst en það er önnur saga. Kröfum mínum var vel tekið og því borðaði ég ofsoðið og bragðlaust grænmeti á hverjum degi á meðan aðrir borðuðu kjöt.
Húsfreyjunni fannst auðvitað alveg ótækt að ég borðaði engan ,,alvöru" mat. Því ákvað hún að gera sérlega vel við mig með því að bjóða mér einn daginn upp á sérpantaðan fisk frá ég veit ekki hvaðan. Ég hef líklega ekki verið orðin nógu góð í þýsku til að skilja hana. Ég varð að vonum ánægð og beið spennt eftir að matmálstíminn kæmi.
Loksins kallaði hún á mig - og á disknum mínum var ...FISKUR. Ekki roðflettur, ekki beinhreinsaður, ekki einu sinni afhausaður - bara heill soðinn fiskur. Gleði mín breyttist skiljanlega í örvæntingu. Hvað í ósköpunum átti ég að gera við þetta? Ég brosti mínu breiðasta, þakkaði henni innilega fyrir hugulsemina og fór að á sérlega klaufalegan hátt að reyna að ná roðinu af. Ekki féll það vel í kramið hjá húsfreyju sem óskapaðist yfir að ég væri frá Íslandi og kynni ekki að verka fisk. Þvílík hneisa. Hún aðstoðaði mig því við að ná fiskmetinu af beinunum og tókst það ekki betur en svo að enn voru bein á víð og dreif. Ég píndi þetta síðan í mig með miklu meðlæti - og brosi á vör. Ég kúgaðist ekkert voðalega mikið. Ég bað til guðs eða bara einhvers sem vildi hlusta á mig.
Mér varð að ósk minni - hún bauð mér aldrei aftur upp á fisk. |
posted by ErlaHlyns @ 00:43 |
|
|
|
Hér skrifar: |

Erla Hlynsdóttir Móðir, kona, meyja og allt það
|
Nýjustu færslur: |
|
Lífið: |
„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich |
Tenglar: |
|
Orð: |
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“
erlahlyns hjá gmail púnktur is
|
 |
|