Hugleiðingar konu v. 6.0
 
28. nóv. 2010
Af graskerjum og þakklæti
Ég mætti snemma því þetta var mitt fyrsta skipti. Margir af þeim reyndari sáu um undirbúninginn heima hjá sér en ég naut leiðsagnar húsfreyjunnar og hlýddi öllu sem hún sagði. 

„Tvær teskeiðar af kanil, tvær teskeiðar af engifer, ein teskeið negull og ein teskeið allrahanda“

Ég lét ekki segja mér þetta tvisvar og bætti kanil og engifer og negul og allrahanda saman við graskersmaukið.  Þetta yrði hin fínasta baka. 

Um fjörutíu manns voru væntanlegir og þegar eldamennskan var vel á veg komin fór þá að bera að garði, einn af öðrum. Ég þekkti suma gestanna, aðra ekki baun, en einhverja þeirra hafði ég aðeins hitt áður í félagsskap konunnar sem bauð okkur öllum þetta kvöldið í Þakkargjörðarkvöldverð.  

Einn af þeim var M. Þó ég þekkti hann heldur lítið fannst mér við algjörlega smella saman, höfum bæði einstaklega góðan húmor og bæði greinilega mjög greind. 

Ég var á þönum þegar hann mætti en ég gaf mér þó tíma til að brosa fallega til hans. Hann brosti ekki á móti, og virtist satt að segja hálf undrandi á þessum móttökum.  

Ég hélt að hann væri bara eitthvað utangátta og brosti aftur til hans næst þegar ég þaut framhjá, enn breiðar en áður. Gott ef ég bætti ekki við vinalegu hæ-i.  Hann sagði líka hæ, en helst til hikandi. 

Hann var í skærrauðri peysu með þverslaufu og ég ætlaði að segja við hann hvað mér fyndist hann í sérlega djarfri peysu þetta kvöldið. Ekki mundi ég eftir að hafa séð hann áður í svona skærum litum. Ég ákvað samt að drífa mig í að raða glösunum á borðið og láta peysulof bíða betri tíma. Við höfðum kvöldið fyrir okkur.

Í þriðja skipti sem ég brosti til hans þurfti ég að smeygja mér framhjá honum og einhverjum manni sem hann var að tala við. Ég brosti aftur, auðvitað, en af einhverjum ástæðum virtist M hafa meiri áhuga á þessum manni en mér.  Gott ef ég fékk ekki bara flóttalegt augnarráð í þetta sinn.

Gestum fjölgaði enn. Ég kyssti þá sem ég þekkti en heilsaði auðvitað þeim sem ég þekkti ekki. Ein af reglum kvöldsins var nefnilega sú að maður varð að tala við ókunnuga. Ekki að ég sé svo mikill dóni að heilsa almennt ekki fólki sem mætir í sama matarboð og ég. En engum fagnaði ég jafn vel og M. 

Maturinn var í þann mund að hefjast þegar maður sem ég kannaðist við mætti á svæðið. Maður með sama húmor og ég, og líka svona greindur. Hann var ekki í skærrauðri peysu heldur mildum litum.

Þetta var M. 
--- 

Önnur reglan í boðinu var að allir áttu að standa upp og þakka það sem þeir eru þakklátir fyrir. 

Ég þakkaði M fyrir hans ræðu, sem hann hélt rétt á undan minni. Þar þakkaði hann nefnilega fyrir að vera svona líka líkur vini sínum honum H.  Því næst rakti hann sögur af endalausum misskilningi vegna líkinda þeirra drengja. 

Ég þakkaði M og ég þakkaði H og í hljóði þakkaði ég fyrir að hafa ekki faðmað „M“ að mér fyrr um kvöldið og sagt: „Gott að þú ert kominn.“

Eftir að þetta var allt komið á hreint fór ég auðvitað til H og hann sagðist vissulega hafa tekið eftir vinahótum mínum. „Mér fannst þú bara svo vinaleg og hlý.“ Hann bætti svo við. „Ég hélt kannski að þetta væri daður.“
----

Burtséð frá þessum dásamlega félagsskap stóð þó maturinn upp úr. 

Það síðasta sem ég hugsaði áður en ég sofnaði í gær var að ég hefði nú átt að fá mér aðeins meira af graskersbökunni.

Það fyrsta sem ég hugsaði í morgun var að ég yrði sem allra fyrst að búa til trönuberjasósu. Í versta falli myndi ég bara borða hana eintóma með skeið.

Ég velti fyrir mér hvort þetta gæti ekki bara verið nýi jólamaturinn okkar, og jafnvel leiddi ég hugann að því að hafa bara Þakkargjörðarþema í afmæli dóttur minnar. Sama hvað henni finnst (enda er hún nógu lítil til að ég fái að ráða öllu).

Þakkargjörðarkvöldverðurinn í gær var minn allra fyrsti og þetta var algjörlega ógleymanlegt.

Í þakkaræðunni þakkaði ég líka Silju Báru fyrir að bjóða mér og tók fram að mig hefði bókstaflega dreymt um það í mörg ár að smakka þann mat sem hefð er fyrir á Þakkargjörðarhátíðinni.

Þökk sé Silju Báru þá kann ég nú að elda graskersböku og gera ljúffenga grænmetisfyllingu, bakaða í graskeri.

Ég er þakklát. Thanks!

Efnisorð:

posted by ErlaHlyns @ 21:36  
3 Comments:
  • At 29/11/10 00:42, Anonymous Silja Bára said…

    það er afgangur af graskersbökunni.

     
  • At 29/11/10 09:26, Anonymous Nafnlaus said…

    Ég er nett abbó, mig langar að komast í svona alvöru þakkagjörðarboð einhvern tímann. Ég hef aldrei bragðað trönuberjasósu. Parísardaman.

     
  • At 29/11/10 20:29, Blogger ErlaHlyns said…

    Silja Bára: Ég væri búin að bjóða mér í böku ef ég væri ekki eitthvað under the weather.

    Parísardama: Þú átt margt eftir! Ég er viss um að í himnaríki er trönuberjasósa með öllu.

     
Skrifa ummæli
<< Forsíða
 
Hér skrifar:

Erla Hlynsdóttir
Móðir, kona, meyja og allt það
Nýjustu færslur:
Lífið:

„Well behaved women seldom make history“
- Laurel Thatcher Ulrich

Tenglar:
Orð:

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir um áratug nefndi ég bloggið mitt: „Hugleiðingar ungrar konu í leit að framtíð.“
Nú er ég orðin eldri og framtíðin skýrari. Það sem eftir stendur eru því: „Hugleiðingar konu.“

erlahlyns hjá gmail púnktur is

Free Blogger Templates

BLOGGER